Félag atvinnurekenda (FA) hefur sent Samkeppniseftirlitinu (SE) erindi þar sem farið er fram á rannsókn á háttsemi afurðastöðva sem að mati félagsins hefur leitt til fyrirsjáanlegs skorts á lambahryggjum í verslunum.

Í erindi FA er bent á að umræddan skort megi rekja til stórtæks útflutnings á verði sem sé mun lægra en íslenskum verslunum standi til boða. FA vill að SE skoði hvort afurðastöðvar hafi gerst brotlegar við samkeppnislög með samstilltum aðgerðum og hvort umræddar vörur hafi verið undirverðlagðar í útflutningi til að skapa skort innanlands.

Eins og greint var frá fyrr í vikunni hefur atvinnuvegaráðuneytið brugðist við með því að gefa út tímabundinn innflutningskvóta. FA telur ástæðu til að SE sendi stjórnvöldum tilmæli um breytta stjórnsýsluframkvæmd í tilvikum sem þessum. Brugðist hafi verið allt of seint við þrátt fyrir augljós teikn á lofti um yfirvofandi skort.