Dómur mun síðar í dag falla í máli fyrr­verandi lög­reglu­mannsins Wa­yne Couzens en hann hefur játað að hafa rænt, nauðgað og myrt hina 33 ára gömlu Söruh E­verard síðast­liðinn mars. Verjandi Couzens sagði fyrir dómi í dag að Couzens væri fullur sjálfs­hatri og að hann væri á engan hátt að gera lítið úr því sem átti sér stað.

Verjandinn sagði Couzens ekki búast við neinu öðru en að vera dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi en fór þó fram á að hann myndi eiga á reynslu­lausn. Þannig yrði ekki svo­kallaðri „who­le-life or­der,“ sem er fyrir sér­stak­lega hættu­lega glæpa­menn, vera beitt en slíkt myndi gera það að verkum að Couzens myndi aldrei losna úr fangelsi.

Uppfært 11:37:

Dómur hefur nú fallið í málinu og hefur Couzens verið dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn. Hann mun því aldrei losna úr fangelsi.

Geta ekki fyrirgefið

Flutningur málsins gegn Couzens hófst í gær þar sem vitni, sem voru meðal þeirra síðustu sem sáu E­verard lifandi, og fjöl­skylda E­verard gáfu skýrslu fyrir dómi. „Hún varði síðustu klukku­stundunum af sinni jarð­vist með því allra versta sem mann­kynið hefur upp á að bjóða,“ sagði móðir E­verard. „Líf okkar verður aldrei eins og það var.“

„Engin refsing sem þú hlýtur mun nokkurn tíma jafnast á við sárs­aukann og pyndingarnar sem þú ollir okkur,“ sagði faðir E­verard beint við Couzens. Þá sagði hann að Couzens væri ekki við­bjargandi og sagðist aldrei geta fyrir­gefið honum.

„Hve­nær áttaði hún sig á því að hún væri ekki að fara að lifa af nóttina,“ spurði systir E­verard þegar hún gaf skýrslu fyrir dómi.

„Blekking, mann­rán, nauðgun, kyrking, og eldur.“

Sak­sóknari flutti einnig mál sitt en hann lýsti því hvernig Couzens nam E­verard á brott, undir því yfir­skini að hann væri að hand­taka hana fyrir sótt­varna­brot. Í kjöl­farið hafi hann farið með hana á af­skekkt svæði þar sem hann nauðgaði henni áður en hann drap hana og kveikti síðan í líkams­leifum hennar.

Þá vísaði sak­sóknarinn til þeirrar um­ræðu sem myndaðist eftir að E­verard dó, þar sem það var í­trekað vísað til þess að hún hafi að­eins verið að labba heim til sín en að sögn sak­sóknarans væri frekar hægt að lýsa kvöldinu sem E­verard dó með fimm orðum; „Blekking, mann­rán, nauðgun, kyrking, og eldur.“

E­verard sást síðast lifandi kvöldið 3. mars þegar hún var á leið heim til sín frá vini en Couzens fór með hana í skóg­lendi við Kent um kvöldið eftir að hafa rænt henni. Ekki liggur fyrir ná­kvæm­lega hve­nær E­verard var myrt en það liggur fyrir að hún hafi verið látin fyrir klukkan hálf þrjú um nóttina. Líkams­leifar hennar fundust síðan viku síðar.