Fréttamaðurinn Helgi Seljan á RÚV gefur lítið fyrir kröfur um afsökunarbeiðni og boðaða málsókn hjónanna Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram gegn honum, Sigmari Guðmundssyni og Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra.

„Það er alveg sama hversu marga dálksentimetra Jón Baldvin Hannibalsson tekur undir þessar greinar sínar og hversu oft hann birtir þær, það er bara einn maður sem hefur orðið uppvís að því að halla réttu máli í sínum málflutningi vegna þessa alls og það ítrekað. Kennitalan hans er í Mogganum í dag, er mér sagt,“ sagði Helgi Seljan um málið.

Grein, undirrituð af Jóni Baldvini og Bryndísi með kennitölum þeirra, var birt í Morgunblaðinu í gær. Í henni er útvarpsstjóra gefinn sjö daga frestur til að draga til baka ummæli sem féllu í útvarpsþætti þar sem Sigmar og Helgi ræddu við Aldísi Schram, dóttur þeirra hjóna. Einnig segja þau að útvarpsstjóri eigi að veita Helga og Sigmari alvarlega áminningu fyrir gróf brot á siðareglum Ríkisútvarpsins og að biðja eigi áheyrendur afsökunar á vinnubrögðum þeirra.

„En ef þér, hr. útvarpsstjóri, kjósið að bregðast ekki við þessari áskorun okkar áskiljum við okkur allan rétt til að stefna yður, fyrir hönd Ríkisútvarpsins, og starfsmönnum yðar, sem og viðmælendum, fyrir rétt, til þess að fá meiðyrði, ranghermi og tilhæfulausar ásakanir, dæmdar dauðar og ómerkar. Og að Ríkisútvarpinu verði skylt að bæta þolendum þessarar ófrægingarherferðar það tjón, sem þau hafa orðið fyrir af völdum RÚV,“ skrifa þau Bryndís og Jón. Fjölskylda þeirra hafi beðið óbætanlegt tjón af völdum umfjöllunar fréttamanna RÚV.

Útvarpsstjóri telur heldur ekki tilefni til þess biðja hjónin afsökunar. Hann segir fréttagildi viðtalsins hafi verið ótvírætt og að siðareglur hafi verið virtar við gerð þess. Magnús sagði Jón Baldvin ekki hafa haft beint samband við sig vegna málsins. Ef þau Jón Baldvin og Bryndís telji á sér brotið bendir Magnús Geir á siðanefnd RÚV eða siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. Þangað sé alltaf hægt að leita.