Söguleg legígræðsla

Blað var brotið í frjósemislækningum þegar hópur brasilískra vísindamanna tilkynnti í læknaritinu The Lancet að þeir hefðu grætt leg úr látinni konu í aðra konu sem ekki gat eignast börn vegna sjaldgæfs erfðagalla. Með smásjárfrjóvgun, þar sem eggfruma líffæraþegans og sæði eiginmanns hennar var notað, tókst læknunum að framkalla okfrumu, sem í kjölfarið dafnaði og varð að heilbrigðu stúlkubarni. Þetta var í fyrsta skipti sem leg úr látinni konu er gefið annarri konu og leiða má líkur að því að mun fleiri sem glíma við ófrjósemi muni nú fá tækifæri til að reyna að eignast börn.

Kílógrammið loks eign allra

Grunneining alþjóðlega einingakerfisins fyrir massa, kílógrammið, var endurskilgreint á árinu og byggir nú á eilífum náttúrufasta, hinum svokallað plankfasta. Hið mikla verkefni að gefa grunneiningum berggrunn í lögmálum náttúrunnar er verkefni sem hófst í frönsku byltingunni fyrir 230 árum, og er nú lokið. Kílógrammið er loks orðið eign okkar allra.

Bóluefni við ebólu

Faraldur ebólu geisar á ný í Kongó. Nú hafa vísindamenn hins vegar bóluefni við veirunni og hafa tæplega 50 þúsund manns fengið bólusetningu í Kongó. Í raun hefur bóluefnið lengi verið til. Nýr leyfishafi, Merck, ákvað að koma bóluefninu í framleiðslu og nú þegar hefur það reynst mikilvægt tól í vopnabúri vísindamanna.

Hugvit og hugrekki

Heimsbyggðin fylgdist með björgunaraðgerðum í norðurhluta Taílands í sumar þar sem 12 drengir urðu innlyksa í helli og þurftu að dvelja í myrkrinu í 17 daga áður en þeim var bjargað. Á marga vegu er björgun drengjanna skólabókardæmi um þrautseigju mannsandans og það hvernig vísindi, verkfræði og hugvit geta gert kraftaverk.

Stephen Hawking kvaddi

Breski eðlisfræðingurinn, heimsfræðingurinn og vísindamiðlarinn Stephen Hawking lést á árinu, 76 ára að aldri. Framlag hans til heimsfræðanna var margþætt og magnað, en áræðni hans og hugrekki í ljósi veikinda hans voru mörgum fyrirmynd. Hawking var lagður til hinstu hvílu í Westminster Abbey, en mun hvíla þar um ókomna tíð við hlið þeirra Isaacs Newton og Charles Darwin

Mars enn í sviðsljósinu

Nokkrir meiriháttar áfangar áttu sér stað í könnun rauðu plánetunnar Mars á árinu. Mars Express, geimfar Evrópsku geimvísindastofnunarinnar, fann vísbendingar um að fljótandi vatn sé til staðar undir íshellu nálægt suðurpól plánetunnar. Könnunarfarið Curiosity hélt uppteknum hætti á árinu og varpaði frekara ljósi á aðstæður á Mars. Þannig fann farið rúmlega þriggja milljarða ára gamlar lífrænar sameindir. Uppgötvunin rennir frekari stoðum undir þá kenningu að aðstæður á Mars hafi eitt sinn verið lífvænlegar. Seinna á árinu lenti InSight geimfarið á plánetunni. InSight mun hefja vísindastörf á næsta ári, en eitt af markmiðum þess er að skima eftir jarðskjálftum (Marsskjálftum?) og kanna betur jarðfræðilega ferla á rauðu plánetunni.

Réttarerfðafræði nýjung ársins

Á árinu beittu lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum réttarerfðafræði af fullum krafti til að leysa sakamál sem í gegnum tíðina hafði reynst ómögulegt að upplýsa með hefðbundnum aðferðum. Þannig vakti það mikla og verðskuldaða athygli þegar aðferðir réttar erfðafræðinnar voru nýttar til að handsama hinn alræmda Golden State-raðmorðingja og nauðgara. Þær upplýsingar sem nýttar voru vörðuðu erfðaefni hins óþekkta morðingja og opna skrá yfir ætterni. Með því að bera saman erfðaupplýsingarnar við opinber gögn í skránum tókst rannsóknarlögreglumönnum að þrengja hringinn verulega og loks handsama raðmorðingjann.

Lamaðir fá hreyfigetu á ný

Svissneskir vísindamenn kynntu einstakar niðurstöður nýrrar tilraunar þar sem nýstárleg aðferð við raförvun var notuð til að lækna að hluta varanlega lömun þriggja manna. Markmið tilraunarinnar var að efla getu þremenninganna til að taka þátt í sjúkraþjálfun. Aðferðin sem vísindamennirnir beittu byggist á því að virkja stöðu- og hreyfiskynjun í rauntíma með markvissri raförvun skaddaðra svæða mænunnar. Frekari tilraunir eru fyrirhugaðar á komandi ári, að þessu sinni í Bandaríkjunum og með mun fleiri þátttakendur.

Jómfrúarflug Fálkans

Geimvísindafyrirtæki Elons Musk, SpaceX, skaut Falcon Heavy-eldflauginni á loft í febrúar. Eldflauginni verður skotið á loft á nýju ári, en hún er hönnuð til að ferja manneskju til Tunglsins, og jafnvel til Mars.

Ævaforn ættingi

Svo virðist sem tengsl hinna margvíslegu tegunda mannskepnunnar sem uppi voru á árum áður hafi verið flóknari en áður var talið. Vísindamenn birtu einstakar niðurstöður í ágúst eftir að hafa raðgreint erfðaefni úr stúlku sem var uppi fyrir 90 þúsund árum. Í ljós kom að hún tilheyrði fyrstu afkomendakynslóð neanderdalskonu sem var af evrópsku bergi brotin og karls af annarri ættkvísl frummanna sem kallast Denisovan. Þessi uppgötvun er sögð renna stoðum undir þá kenningu að hinar margvíslegu tegundir mannanna, sem allar eru útdauðar, fyrir utan hinn viti borna mann, hafi átt nokkuð mikil samskipti.

Baráttan við loftslagsbreytingar

Loftslagsbreytingar og tilheyrandi breytingar á veðrakerfum og lífkerfum Jarðar eru vafalaust stærsta vísindafrétt þeirrar kynslóðar sem uppi er í dag. Í ár tók loftslagsumræðan á sig nýja og dekkri mynd. Nokkrar yfirgripsmiklar skýrslur frá helstu sérfræðingum heims í loftslagsmálum um stöðu mála í baráttunni við loftslagsbreytingar voru gefnar út. 

Þar á meðal var skýrsla Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) sem sýndi fram á að það verður gríðarlega erfitt fyrir mannkyn að forðast hnattræna hlýnun sem nemur 1,5 gráðum miðað við tímann fyrir iðnbyltingu. Hækkunin í dag nemur 1,1 gráðu. Slík hækkun mun hafa meiriháttar breytingar í för með sér. Breytingar sem munu raska lífi og möguleikum milljóna manna um víða veröld. Þessar breytingar eru hins vegar smávægilegar í samanburði við hækkun upp á tvær gráður, sem er raunverulegur möguleiki í dag. Á sama tíma og áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum raungerast með hækkandi sjávarstöðu, tíðari og öflugri fellibyljum og mannskæðari skógar- og kjarreldum, þá heldur losun gróðurhúsalofttegunda áfram að aukast. Bandaríkin hafa sagt sig frá Parísarsamkomulaginu og hafa tekið höndum saman við önnur ríki sem reiða sig á framleiðslu og sölu olíu til að grafa undan alþjóðlegu samstarfi um aðgerðir til að stemma stigu við losun. 

Þó er að finna vonarglætu. Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi sammæltust þjóðir heims um hvernig skuli innleiða staðla og aðgerðir til að hrinda Parísarsamkomulaginu í framkvæmd árið 2020