Terminator stjarnan og fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu Arnold Schwarzenegger fór í ósæðarlokuskipti nú á dögunum og er nú þegar á batavegi.

Schwarzenegger greindi sjálfur frá þessu á Twitter og birti mynd af sér að rölta um Cleveland en hann fór í aðgerð hjá Cleveland Clinic, einu virtasta sjúkrahúsi í lækningum á hjartasjúkdómum í heiminum.

„Mér líður stórkostlega,“ skrifaði hann.

Stórleikarinn hefur áður farið í hjartaaðgerð en það var til þess að skipta um lungnaslagæðarloku.

Schwarzenegger er með ósæðarlokuþrengsli, sem er algengasti hjartalokusjúkdómurinn á Vesturlöndum. Einstaklingar með þennan sjúkdóm finna fyrir mæði og sumir geta jafnvel átt erfitt með að labba upp stiga. Sjúkdómurinn getur einnig valdið brjóstverkjum, hjartsláttaróreglu og jafnvel skyndidauða.

Tíðni sjúkdómsins eykst með aldri en kölkun í lokublöðunum veldur því að hjartað á erfiðara með að tæma sig. Ósæðarlokuskipti eru ein algengasta hjartaskurðaðgerðin í heiminum.