Búið er að loka hluta af Schiphol flugvellinum í Amsterdam vegna gruns um flugrán. BBC greinir frá.

Þrír menni eru sagðir vera um borð í flugvélinni vopnaðir hnífum og er talið að þeir séu að reyna að ræna flugvél Air Europa á leið til Madrid að því er fram kemur á vef The Mirror. Herlögreglan er á vettvangi eins og stendur.

Búið er að kyrrsetja allar vélar á flugvellinum sem áttu að leggja af stað í kvöld.

Hollensk lögregluyfirvöld greina frá því að rannsókn standi yfir vegna grunsamlegs athæfis mannanna. Ferðalangar staddir á flugvellinum hafa birt myndir af Twitter en þar sést að búið er að loka D-hluta flugvallarins vegna málsins.

Forsvarsmenn Schiphol flugvallar segja í tilkynningu að búið sé að rýma flugvélina.

Ein flugvél Icelandair flaug frá flugvellinum í dag og lagði af stað klukkan 13:05.

Frétt uppfærð 20:02.

Hollenskir miðlar segja að flugmaður vélarinnar hafi ýtt á viðvörunarhnapp í vélinni. Hollenska fréttaveitan BNO news segir að um hafi verið að ræða mistök og að ekkert hættuástand eigi sér stað.