Íslenskar mæðgur, sem hafa ræktað schäfer-hunda um árabil, hafa verið útilokaðar frá allri þátttöku í starfi Hundaræktarfélags Íslands í fimmtán ár.

Með úrskurði siðanefndar Hundaræktarfélagsins hefur þeim verið vísað úr félaginu vegna stórfelldra brota á reglum félagsins um skráningu í ættbók. Konurnar hafa einnig verið áminntar og sviptar ræktunarnafni sínu. Þetta kemur fram í úrskurði siðanefndar HRFÍ sem var kveðinn upp 25. janúar.

Stjórn Hundaræktarfélagsins sagði mæðgurnar hafa gerst sekar um sex brot;

  1. Að hafa vísvitandi skráð ranga ræktunartík á þrjú pörunarvottorð við umsókn um ættbókarskráningu gota. Með þessari háttsemi hafi þær brotið gróflega gegn markmiðum félagsins og því ræktunarstarfi sem það stendur fyrir, brotið trúnað sem ræktendur, skaðað ættbók félagsins og valdið félaginu skaða.
  2. Að hafa ekki mætt með hunda úr ræktun sinni í lífsýnatöku til sönnunar á ætterni sem fram fór að kröfu félagsins.
  3. Neitað að gefa upplýsingar og svarað fyrirspurnum framkvæmdastjóra með útúrsnúningum í tölvupósti.
  4. Fölsun og kosningasvindl með því að tilkynna eigendaskipti á tík sem hafði verið aflífuð viku áður til að geta veitt sambýlismanni annarrar konunnar kjörgengi og atkvæðisrétt á aðalfundi Schäferdeildar HRFÍ.
  5. Meiðyrði gegn framkvæmdastjóra félagsins í tölvupósti með því að saka hann um refsiverða háttsemi og freklega varpað rýrð á störf hans í þágu félagsins.
  6. Æform um að para undaneldishundi við tík sem ekki var ættbókarfærð.

Eftir að upp komst um ranga skráningu þurfti að ógilda ættbækur tólf hunda og færa sextán aðra hunda í viðauka við ættbók félagsins og þar með í ræktunar- og sýningabann.

Segja rannsóknin ekki hlutlæga

Dómurinn er ítarlegur og langur; alls 76 blaðsíður. Mæðgurnar og lögmaður þeirra héldu því fram að rannsókn á málinu væri ekki hlutlæg, málatilbúnaður væri ólögmætur og málið búið til í „bullvefheimum“ og vísuðu til umræðu á samfélagsmiðlum um hundamál sem tengdust ræktendum. Þær kröfðust þess að kæru stjórnar yrði vísað frá þar sem þær töldu kæruna falla utan starfssviðs stjórnar félgasins.

„Eingöngu væri um að ræða ótrúlegar hefndaraðgerðir þar sem löglærður fulltrúi siðanefndar beitti sér í þá átt að reyna að gera kærðu tortryggilega.“

Hundaræktarfélagið fékk niðurstöður úr foreldragreiningu frá MATÍS sem staðfesti ranga skráningu en mæðgurnar töldu eitthvað hafa fari úrskeiðis í greiningu MATÍS sem þyrfti að skoða nánar.

Sögðu þær að áform um að para hund við tík sem ekki væri ættbókarfærð ekki mögulegt brot þar sem það var aldrei framið. „Að spá í að setja hund á tík en gera það svo ekki sé 10000% ekki brot á neinum reglum og því viðurlagalaus,“ segir í málflutningi mæðgnanna.