Sautján manns greindust með COVID-19 síðastliðinn sólarhring. Af þeim voru 10 innanlands og 7 á landamærunum, eitt þeirra virkt smit.

Þau sem greindust innanlands voru öll fullbólusett, fimm þeirra þegar í sóttkví.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn Almannavarna munu fara yfir stöðu mála á upplýsingafundi í dag klukkan 11:00.

Almannavarnir segja stöðuna varhugaverða vegna COVID-19 smita síðastliðna daga en nú er Delta afbrigðið svokallaða farið að láta á sér kræla hér á landi.

Meðal landamærasmita er farþegi um borð í skemmtiferðaskipinu Viking Sky sem er nú á Seyðisfirði. Farþeginn greindist í reglulegri skimun um borð í skipinu og var hann þá einnig tekinn í sýnatöku á Íslandi og staðfest smit.