Marek Moszczynski, 62 ára gamall maður, er ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps, vegna brunans að Bræðraborgarstíg 1. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa ráðist á lögreglumennina sem handtóku hann við rússnenska sendiráðið daginn sem húsið brann.

Sautján manns gera bótakröfur um 71.610.698 krónur alls. Þetta kemur fram í ákærunni sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Þrír íbúar hússins létu lífið í brunanum; þau voru fædd 1998, 1995 og 1994. Þrettán manns voru í húsinu þegar kviknaði í.

Marek Moszczynski þegar hann var leiddur fyrir dómara í sumar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Kveikti eld í herbergi sínu

Marek er ákærður fyrir að kveikja í húsinu, drepa þrjá og tilraun til að drepa tíu. Samkvæmt ákærunni kveikti hann eld á gólfi í herbergi sínu á annarri hæðinni og á tveimur stöðum á gólfi í sameiginlegu rými á sömu hæð, undir stiga sem lá upp á þriðju hæð hússins.

Eldurinn breiddist hratt út um aðra og þriðju hæð hússins og var það nánast alelda það slökkvilið bar að garði. Tvær ungar konur og einn ungur maður létust í brunanum og tíu voru í lífsháska vegna eldsins.

Við þingfestingu málsins í dag neitaði Marek sök.

Eldurinn breiddist hratt út og var húsið nánast alelda það slökkvilið bar að garði.
Fréttablaðið/Anton Brink

Alvarlegir áverkar

Húsið gjöreyðilagðist og fjórir íbúar hlutu alvarlega áverka. Einn íbúanna hlaut væga reykeitrun og annar féll af þriðju hæð og hlaut reykeitrun, skurði á bæði hné, staðbundna heilaáverka, mörg brot á höfuðkúpu og á andlitsbeinum og blóðtappa í slagæðum lungna.

Hinn þriðji hlaut reykeitrun, sár á vinstri hendi og vinstri fótlegg.

Fjórði hlaut reykeitrun og annars og þriðja stigs brunasár á 17 prósent líkamans. Brunasárin teygðu sig yfir báða handleggi, handarbök og ofanvert á fingur, yfir hnéskeljar og nánast allt bak hans.

Stúlka leggur blóm við rústirnar á Bræðraborgarstíg á minningarathöfn í sumar.
Fréttablaðið/ Ingunn Lára