Hildi Sverris­dóttur vantar einungis sau­tján at­kvæði til að hrifsa fjórða sæti úr höndum Brynjars Níels­sonar, sitjandi þing­manns, nú þegar birtar hafa verið seinni tölur. Hún virtist merki­lega brött þrátt fyrir stressandi kvöld þegar Frétta­blaðið heyrði í henni hljóðið.

Eins og greint var frá birtust nýjustu tölur úr próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík nú klukkan 21:00. Guð­laugur Þór situr enn í 1. sæti, Ás­laug Arna í því öðru og Diljá Mist Einars­dóttir í þriðja sæti.

Á eftir koma þau Brynjar og Hildur. Diljá Mist er nokkuð örugg í þriðja sæti en 420 at­kvæði skilja milli hennar og Brynjars. Hins­vegar er gríðar­lega mjótt á munum milli Brynjars sem er í 4. sæti sem stendur og Hildar sem er í því fimmta. Hana vantar að­eins 17 at­kvæði í það sæti til að ná Brynjari.

„Það er bara yfir­leitt bilað stuð hjá mér,“ segir Hildur létt í bragði um stöðu mála í kvöld. „Þetta kemur mér tals­vert á ó­vart og er vissu­lega gleði­legt fyrir mig, en þetta er ekki búið,“ segir Hildur vegna þessa ó­trú­lega litla muns á henni og Brynjari.

Hún er merki­lega ró­leg og í góðra vina hópi heima hjá sér að fylgjast með stöðu mála. „En við­brögðin hingað til gagn­vart mér er ég þakk­lát fyrir,“ segir Hildur. „Þetta er vissu­lega lítill munur og verður spennandi að sjá næstu tölur.“

Þrettán manns eru í fram­­boði í próf­­kjörinu sem er sam­eigin­­legt fyrir bæði Reykja­víkur­­kjör­­dæmi. Greint verður frá næstu tölum klukkan 23:00 í kvöld eða mögulega fyrr, gangi talning vel.

Sundurliðun talna þegar 3113 atkvæði hafa verið talin má nálgast hér.