Hildi Sverrisdóttur vantar einungis sautján atkvæði til að hrifsa fjórða sæti úr höndum Brynjars Níelssonar, sitjandi þingmanns, nú þegar birtar hafa verið seinni tölur. Hún virtist merkilega brött þrátt fyrir stressandi kvöld þegar Fréttablaðið heyrði í henni hljóðið.
Eins og greint var frá birtust nýjustu tölur úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík nú klukkan 21:00. Guðlaugur Þór situr enn í 1. sæti, Áslaug Arna í því öðru og Diljá Mist Einarsdóttir í þriðja sæti.
Á eftir koma þau Brynjar og Hildur. Diljá Mist er nokkuð örugg í þriðja sæti en 420 atkvæði skilja milli hennar og Brynjars. Hinsvegar er gríðarlega mjótt á munum milli Brynjars sem er í 4. sæti sem stendur og Hildar sem er í því fimmta. Hana vantar aðeins 17 atkvæði í það sæti til að ná Brynjari.
„Það er bara yfirleitt bilað stuð hjá mér,“ segir Hildur létt í bragði um stöðu mála í kvöld. „Þetta kemur mér talsvert á óvart og er vissulega gleðilegt fyrir mig, en þetta er ekki búið,“ segir Hildur vegna þessa ótrúlega litla muns á henni og Brynjari.
Hún er merkilega róleg og í góðra vina hópi heima hjá sér að fylgjast með stöðu mála. „En viðbrögðin hingað til gagnvart mér er ég þakklát fyrir,“ segir Hildur. „Þetta er vissulega lítill munur og verður spennandi að sjá næstu tölur.“
Þrettán manns eru í framboði í prófkjörinu sem er sameiginlegt fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmi. Greint verður frá næstu tölum klukkan 23:00 í kvöld eða mögulega fyrr, gangi talning vel.
Sundurliðun talna þegar 3113 atkvæði hafa verið talin má nálgast hér.