„Jú, það verður að segjast. Þetta er eitthvað sem maður gerði ekki ráð fyrir,“ segir Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, spurður hvort það komi sauðfjárbændum á óvart að sýklalyfjaónæmi hafi greinst í íslensku sauðfé.

Matvælastofnun greinir frá því í dag að sýklalyfjaónæmar bakteríur hafi greinst í lömbum. „Líkt öðru búfé, eru íslensk lömb ekki laus við bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum eða sem geta þróað slíkt ónæmi og dreift í aðrar bakteríur. Hlutfallið á Íslandi í alifuglum og svínum er svipað og á Norðurlöndunum en er þó lægra en í öðrum Evrópulöndum,“ segir á vef Matvælastofnunar en þar er vísað í nýja skýrslu. Í fjórum sýnum af 76 voru sýklalyfjaónæmar bakteríur. „ESBL/AmpC myndandi E. coli greindist í þörmum um 4% lamba. Það er álíka og í þörmum íslenskra alifugla og svína undanfarin ár.“

Sjá einnig: Ónæmar bakteríur fundust í íslenskum lömbum

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir í samtali við Fréttablaðið að við þessu hafi mátt búast. Hún segir að umræðan um innflutningshöft á hráu kjöti, í sambandi við sýklalyfjaónæmi, hafi verið á miklum villigötum. Sýklalyfjaónæmar bakteríur séu allt í kring um okkur. Engin leið sé að vita hvaðan lömbin hafa sýkst af þessum bakteríum eða hvort þau mynduðu bakteríurnar sjálf. 

Þetta er í fyrsta sinn sem skimað er fyrir sýklyfjaónæmum bakteríum í lömbum en eins og fram kemur í frétt Matvælastofnunar mun stofnunin á þessu ári einnig rannsaka ónæmi í hrossum og grænmeti, svo dæmi séu tekin. Hún segir að lömbin hafi getað sýkst úr umhverfinu, frá manninum eða úr öðrum dýrum. Þá komi fóður einnig til greina, jafnvel þó það hafi verið hitameðhöndlað. Sigurborg bendir á að bakteríurnar sem fundust í lömbunum séu þeirrar gerðar að þær geti kennt öðrum bakteríum að mynda ónæmi fyrir sýklalyfjum. 

Spurð hvort um áfall sé að ræða svarar Sigurborg því til að þetta sé ekkert áfall fyrir yfirdýralækni. „Þetta er bara það sem við erum að skoða eða greina. Þetta kemur mér ekkert á óvart. Þetta er í öllu okkar umhverfi.“ Hún segist hins vegar ekki geta svarað því hvort þetta sé áfall fyrir sauðfjárbændur, en þeir hafa talað gegn innflutningi á hráu kjöti, meðal annars til að vernda stofn sauðfjár fyrir sýklalyfjaónæmum bakteríum.

„Þetta sýnir okkur bara að þetta er nær okkur en við héldum. En við þurfum að sjá gögnin og átta okkur á tíðni og þess háttar,“ segir Unnsteinn við Fréttablaðið, en hann hafði skömmu áður heyrt af málinu í fyrsta sinn. Stjórnarfundur í Landssamtökum sauðfjárbænda fer fram í dag. Þar mun þetta mál að sögn Unnsteins sennilega bera á góma.