Héraðs­dómur Reykja­víkur hefur sak­fellt karl­mann fyrir líkams­á­rás á konu á bíla­stæði þann 18. mars 2020. Maðurinn brást ó­kvæða við þegar konan lagði bif­reið sinni fyrir aftan hans í stæði sem var merkt íbúð hennar.

Í á­kæru kemur fram að maðurinn hafi veist að konunni með of­beldi, hrint henni að minnsta kosti tvisvar sinnum með þeim af­leiðingum að hún féll aftur fyrir sig á hurðar­karm og vegg. Af­leiðingarnar hafi verið þær að hún hlaut háls­tognun, tognun á brjóst­hrygg, mar á höfði og vinstra megin á öxl.

Sá ekki sér­merkingarnar

Þegar lög­regla kom á vett­vang lýsti konan því að hún hefði komið heim til sín skömmu áður og ætlað að leggja bif­reið sinni í stæði sem merkt var íbúð hennar. Þar hafi verið fyrir önnur bif­reið og hún brugðið á það ráð að leggja fyrir aftan hana. Um hálf­tíma síðar var hringt á bjöllu í íbúð hennar og var það öku­maður bif­reiðarinnar sem var í stæðinu.

Konan lýsti því að maðurinn hafi verið mjög æstur og ýtt við henni eftir að hún kom út til að ræða við hann. Hann hafi kannast við að hafa lagt í um­rætt stæði en ekki séð neinar sér­merkingar þar sem allt var þakið snjó. Þá hefði hann ekki komist leiðar sinnar vegna bif­reiðarinnar sem var lagt fyrir aftan hann. Í skýrslu lög­reglu kom fram að snjór hafi verið yfir öllu og því ekki unnt að sjá merkingar bíla­stæða.

Á­kvörðun um refsingu frestað

Maðurinn sagði fyrir dómi að konan hafi verið með „fýlu­skæting“ og sagst ekki ætla að færa bílinn. Kannaðist hann við að hafa verið æstur og mögu­lega snert hana í ein­hverju „handa­pati“. Taldi hann úti­lokað að konan hefði hlotið á­verka eftir hann. Konan lýsti því aftur á móti að maðurinn hafi verið ógnandi, ýtt við henni og sparkað í hurð. Hún hefði beðið hann að róa sig niður en án árangurs.

Dómurinn taldi sannað að maðurinn hafi veist að konunni með of­beldi. Taldi dómurinn þó ó­sannað að að líkam­legar af­leiðingar á­rásarinnar hafi verið aðrar en þær sem sýni­legar og merkjan­legar voru við læknis­skoðun, það er mar á höfði og vinstra megin á öxl.

Á­kvörðun um refsingu í málinu var frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum haldi maðurinn skil­orð. Honum var aftur á móti gert að greiða konunni 200 þúsund krónur í miska­bætur, 250 þúsund krónur í máls­kostnað og 550 þúsund krónur vegna verjanda síns í málinu.