Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karlmann fyrir líkamsárás á konu á bílastæði þann 18. mars 2020. Maðurinn brást ókvæða við þegar konan lagði bifreið sinni fyrir aftan hans í stæði sem var merkt íbúð hennar.
Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi veist að konunni með ofbeldi, hrint henni að minnsta kosti tvisvar sinnum með þeim afleiðingum að hún féll aftur fyrir sig á hurðarkarm og vegg. Afleiðingarnar hafi verið þær að hún hlaut hálstognun, tognun á brjósthrygg, mar á höfði og vinstra megin á öxl.
Sá ekki sérmerkingarnar
Þegar lögregla kom á vettvang lýsti konan því að hún hefði komið heim til sín skömmu áður og ætlað að leggja bifreið sinni í stæði sem merkt var íbúð hennar. Þar hafi verið fyrir önnur bifreið og hún brugðið á það ráð að leggja fyrir aftan hana. Um hálftíma síðar var hringt á bjöllu í íbúð hennar og var það ökumaður bifreiðarinnar sem var í stæðinu.
Konan lýsti því að maðurinn hafi verið mjög æstur og ýtt við henni eftir að hún kom út til að ræða við hann. Hann hafi kannast við að hafa lagt í umrætt stæði en ekki séð neinar sérmerkingar þar sem allt var þakið snjó. Þá hefði hann ekki komist leiðar sinnar vegna bifreiðarinnar sem var lagt fyrir aftan hann. Í skýrslu lögreglu kom fram að snjór hafi verið yfir öllu og því ekki unnt að sjá merkingar bílastæða.
Ákvörðun um refsingu frestað
Maðurinn sagði fyrir dómi að konan hafi verið með „fýluskæting“ og sagst ekki ætla að færa bílinn. Kannaðist hann við að hafa verið æstur og mögulega snert hana í einhverju „handapati“. Taldi hann útilokað að konan hefði hlotið áverka eftir hann. Konan lýsti því aftur á móti að maðurinn hafi verið ógnandi, ýtt við henni og sparkað í hurð. Hún hefði beðið hann að róa sig niður en án árangurs.
Dómurinn taldi sannað að maðurinn hafi veist að konunni með ofbeldi. Taldi dómurinn þó ósannað að að líkamlegar afleiðingar árásarinnar hafi verið aðrar en þær sem sýnilegar og merkjanlegar voru við læknisskoðun, það er mar á höfði og vinstra megin á öxl.
Ákvörðun um refsingu í málinu var frestað og fellur hún niður að tveimur árum liðnum haldi maðurinn skilorð. Honum var aftur á móti gert að greiða konunni 200 þúsund krónur í miskabætur, 250 þúsund krónur í málskostnað og 550 þúsund krónur vegna verjanda síns í málinu.