Ís­lenski dans­flokkurinn frum­sýndi Pott­þétt myrkur fyrir fullum sal á World Culture´s lista­há­tíðinni í Hong Kong í gær. „Um tíma leit út fyrir að það yrði að fella niður sýninguna af því að það sauð upp úr á milli mót­mælenda og lög­reglunnar, sem beitti fyrir sig tára­gasi,“ kemur fram í til­kynningu Ís­lenska dans­flokksins.

Tví­sýnt hvort af yrði


Tveimur tímum áður en sýningin átti að hefjast fylltist gatan fyrir framan leik­húsið af svart­klæddum mót­mælendum. Að sögn list­ræns stjórnanda sýningarinnar, Ernu Ó­mars­dóttur, var mann­hafið gríðar­legt og stöfluðu mót­mælendur öllu laus­legu á göturnar til að stöðva um­ferð og hamla för lög­reglunnar.

„Sem betur fer færðust á­tökin smám saman frá Sheung Wan Civic Centre leik­húsinu og yfir í önnur hverfi þegar leið nær sýningar­tíma.“ Sýningin fór því fram á settum tíma öllum til mikils léttis.

Mannhaf af mótmælendum fyrir utan Sheung Wan Civiv Centra leikhúsið.
Mynd/Íslenski danflokkurinn

Þótti endurspegla mót­mælin


Há­tíðar­haldarar í Hong Kong höfðu orð á því að hefðu mót­mælin verið byrjuð þegar verkið var borið undir menningar­mála­ráðu­neyti Hong Kong, sem er hlið­hollt kín­verskum yfir­völdum, þá hefði því aldrei verið hleypt á stokk, þar sem hægt væri að tengja inn­tak verksins við of­beldið á götum úti.

„Í upp­hafi verksins klæðast dansarar Íd svörtum al­klæðnaði og dansa við svart­klæddar brúður í mann­stærð. Dansararnir og brúðurnar minna því merki­lega mikið á svart­klædda og grímu­klædda mót­mælendur Hong Kong, en verkið var búið til og valið til sýningar hér löngu áður en mót­mælin hófust.“ Um sé að ræða hreina til­viljun.

„Til að byrja með líða svart­klæddar verurnar um sviðið og minna á ó­reiðu­kennd náttúru­öflin, en eftir því sem líður á sýninguna fara dansararnir að beita brúðurnar of­beldi og tuska þær til, í bland við það að sýna þeim ást­úð og blíð­leg at­lot. Þegar of­beldið færist í aukana verða líkindin við at­burði ó­eirðirnar á götum úti ó­hjá­kvæmi­leg og öng­þveitið á leik­sviðinu kallast á við að­stæðurnar úti.“

Agn­dofa á­horf­endur


Í til­kynningunni kemur fram að sýningin hafi skilið engan eftir ó­snortin. „Á­horf­endur, ýmist grétu eða sátu agn­dofa yfir á­hrifa­ríku verkinu og voru fagnaðar­lætin í lokin inni­leg og kröftug.“

Pott­þétt myrkur var frum­sýnt í Borgar­leik­húsinu fyrir tæp­lega ári við góðar við­tökur. Tón­list Sigur Rósar ómar í takt við dansinn á sviðinu en verkið var einnig sýnt á há­tíðinni Norður og niður sem haldið var af með­limum Sigur Rósar síðasta vetur.