Kappræðurnar á Stöð2 breyttust um stund í fuglabjarg er frambjóðendur kepptust hvor við annan um að ná orðinu þegar skattamálin voru til umræðu.
Heimir Már Pétursson, fjölmiðlamaður, ákvað viljandi að færa hita í leikinn er hann spurði Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, hverju ríkisstjórnin hafði klúðrað á kjörtímabilinu að hans mati.
Logi svaraði á þá leið að ríkisstjórnin hafi klúðrað því að jafnað kjörin í landinu og sýnt metnaðarleysi í nokkrum málum m.a. loftlagsmálum. Þess vegna væri mjög brýnt að það taki við ný ríkisstjórn sem að jafnar kjörin í landinu.
Heimir færði boltann því yfir til Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og spurði hvort ríkisstjórn hennar hafi ekki stuðlað að jöfnuði og setið bara aðgerðarlaus?
„Þetta er dálítið merkilegt því það verður að halda til haga staðreyndum,“ sagði Katrín og byrjaði að tala um að kjörtímabilinu hefðu verið gerði lífskjarasamningar við launafólk.
Logi greip þá fram í fyrir Katrínu og kallaði „En þeir náðu ekki til aldraða og öryrkja“ á meðan Katrín hélt orðinu og sagði að verkalýðshreyfingin hér á landi hefur verið að leggja mikla áherslu á hækka lægstu launin.
„Það er góð áhersla og sú áhersla er aðskila sér inn í að það er tiltölulega mikill tekjujöfnuður og hvað gerði ríkisstjórnin? Hún hækkaði barnabætur og lækkaði skatta á tekjulægsta fólkið,“ sagði Katrín áður en Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, greip inn í. „Og hvað kostaði það?“ spurði Inga áður en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom inn sem þriðji maður í umræðuna og svaraði Ingu: „21 milljarð.“
„Og fengu það allir?“ spurði Inga aftur áður en Katrín hélt áfram að tala.
„Þannig við sjáum tölurnar birtast í því að skattbyrði þessa hópa að hún er að lækka. Tölum líka um húsnæðismálin. Þriðjungur af þeim íbúðum sem var byggður hér í fyrra og í ár þær koma til vegna vegna stuðnings stjórnvalda við almenna íbúðakerfið og almennra hlutdeildarlána,“ sagði Katrín.
„Ég verð aðeins að koma inn á skattana“
Bjarni tók skattamálin aftur fyrir er hann ákvað að svara bæði Loga og Gunnari Smára Egilssyni, formanni Sósíalistaflokksins, sem báðir höfðu sakað Bjarna um að lækka skatta á tekjuhæsta fólkið í landinu.
„Ég verð aðeins að koma inn á skattana. Hér er verið að tala eins og við erum ekki að nota skattkerfið til að jafna kjörin,“ sagði Bjarni.
„Við lækkuðum skatt mest á þá sem eru með 350 þúsund krónur á mánuði í laun. Við skulum hafa eina staðreynd á hreinu hérna. Því hér er talað um að þeir sem eru tekjuhæsti komist langbest frá þessu. Tuttugu prósent tekjuhæsta einstaklinga á Íslandi skila 75 prósent af skattinum þegar tekið er tillit til bótakerfisins. Þetta er kerfið sem er að létta byrði og styðja við þá sem eru neðst í tekjustiganum og tekur langmest af þeim sem eru efst uppi,“ sagði Bjarni.
„Þetta eru staðreyndir,“ bætti hann við.
Bjarni sagði að lokum að það væri því ekki rétt nálgun að fara „kroppa eitthvað meira af tekjuhæsta eina prósentinu“ því það væru ekki stórar upphæðir í þessu samhengi. Logi sagði við Bjarni að það myndi skila 10 til 14 milljörðum í ríkissjóð og væri því ekki lítil upphæð.
„Förum að tala um hluti sem skipta í alvörunni máli. Við erum með mikinn halla á ríkissjóð og við stöndum frammi fyrir mjög krefjandi verkefni að missa ekki tök á verðbólgunni. Heimilin og sérstaklega tekjulága fólkið mun finna fyrir því,“ sagði Bjarni