Birgir Ár­manns­son, for­seti Al­þingis, þurfti að grípa inn í þegar Logi Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar og Óli Björn Kára­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, fóru að munn­höggvast á Al­þingi í dag.

Logi Einars­son hóf um­ræður á Al­þingi í dag með því að flytja þings­á­lyktunar­til­lögu um þjóðar­at­kvæða­greiðslu um fram­hald við­ræðna við Evrópu­sam­bandið. Tillagan gengur út á það þjóðin muni kjósa fyrir árslok 2023 um áframhaldandi viðræður við ESB.

Logi hélt langa framsögu um nauð­syn þess að það yrði farið í þjóðar­at­kvæða­greiðslu sér í lagi vegna stöðunnar í Úkraínu og mikil­vægi þess að vera í varnar­banda­lagið með Evrópu­sam­bands­ríkjunum. Hann sagði einnig að um­sókn Ís­lands hafi verið dregin til baka án þess að leitað hafi verið eftir vilja þings eða þjóðar.

Óli Björn veitti and­svör og minnti Loga á að Össur Skarp­héðins­son, utan­ríkis­ráð­herra Sam­fylkingarinnar, hafi tekið þá á­kvörðun að gera hlé á við­ræðunum við ESB í að­draganda kosninga árið 2013.

„Þannig því sé haldið til haga,“ sagði Óli. „En þegar að þessi á­kvörðun var tekinn höfðu ís­lensk stjórn­mál ekki með neinum hætti veitt þá pólitíska for­ystu sem nauð­syn­legt var í aðildar­um­sóknar­við­ræðunum,“ bætti Óli við.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis þurfti að stíga inn í frammíköll frá Loga á Alþingi í dag.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Óli sagði að Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir, fyrr­verandi utan­ríkis­ráð­herra, hafi í­trekað bent á það á árum áður og það hafi ekki verið tilgreint opinberlega hver raun­veru­leg samnings­mark­mið Ís­lands í land­búnaðar- og sjávar­út­vegs­málum.

Óli sagði að eina sem hafi komið fram í þeim efnum væri skýrsla frá Evrópu­þinginu sem sagði að það væri mark­mið ís­lenskra stjórn­valda að halda að­eins hluta af stjórn fisk­veiða við Ís­lands­strendur.

„Er það er svo? Þegar haldið verður áfram og sam­þykkt verði þessi til­laga sem hér liggur fyrir og við höldum á­fram samninga­við­ræðum að þá sé samnings­mark­mið okkar að halda að­eins hluta af stjórn fisk­veiða sem Evrópu­þingið helt að væri mark­mið ís­lenskra stjórn­valda,“ spurði Óli Björn.

Það var mikill hiti í umræðu um ESB viðræður í dag.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

„Það er greini­legt að það er hiti í fólki“

Logi kom þá næst í pontu og sagði að hátt­virtum þing­manni virðist nokkuð brugðið við þessa til­lögu og sakaði hann um að óttast það að þjóðin vilji halda við­ræðunum á­fram. „Það er grund­vallar­munur á því, ekki stigs­munur, hvort að fólk taki á­kvörðun um að taka hlé eða draga til baka,“ sagði Logi til að svara ummælum Óla um Össur.

„Hátt­virtur þing­maður þarf að ekki að óttast Sam­fylkingin, Við­reisn eða Píratar ætli út í leið­angur sem leiðir til þess að við förum að gefa frá okkur meiri gæði fyrir minni. Í samningum þá takast aðilar á og best er að báðir fari frá borðinu sáttir,“ sagði Logi.

Óli Björn veitti þá and­svar öðru sinni. „Ég tók eftir því að hátt­virtur þing­maður hafnaði því ekki að það kæmi til greina að það verði samnings­mark­mið okkar í sjávar­út­vegs­málum að hugsan­lega af­sala okkur ...“ sagði Óli Björn áður en Logi greip harka­lega fram í og kallaði há­stöfum úr sæti sínu að Óla.

Það mátti einnig heyra aðra þing­menn taka undir með Loga og kalla hástöfum að Óla Björn sem bað Loga um róa sig: „Vertu ró­legur hátt­virtur þing­maður,“ sagði Óli á meðan Birgir reis úr sæti sínu og byrjaði að berja í bjöllu sína: „Ég ætla biðja hátt­virta þing­menn að gefa ræðu­manni tæki­færi til að ljúka máli sínu,“ sagði Birgir.

„Það er greini­legt að það er hiti í fólki. Er hátt­virtur þing­maður þá að halda því fram að Evrópu­þingið hafi mis­skilið samnings­mark­mið Sam­fylkingar og Vinstri-grænna þegar það kom að þessu?“ spurði Óli Björn.

Logi kom þá næst í pontu og svaraði Óla:

„Herra for­seti ég þekki nú Skag­firðing ekki að ó­heill­indum eða fyrir að hafa slæmt minni en það er með ó­líkindum að þessi til­tekni Skag­firðingur virðist ekki geta haft eftir það sem sagt var tveimur mínútum áður. Ég sagði að auð­vitað væri það mark­mið Ís­lands i slíkum málum að halda yfir­ráðum yfir auð­lindunum. En ef þetta á að vera for­smekkurinn af um­ræðunni sem við eigum í vændum þá er best að búa sig undir það,“ sagði Logi.