Útlit er fyrir að hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fari að þolmörkum á föstudag og fram yfir helgi vegna kuldakasts. Hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun vegna þess. Mikil aukning hefur orðið á notkun heita vatnsins á árinu, en Veitur segjast ekki hafa getað séð hana fyrir enda er aukningin heil ellefu prósent. Í venjulegu árferði er aukningin um eitt og stundum upp í fjögur prósent.

„Það eru nokkrir þættir sem geta orsakað þessi ellefu prósent en við erum ekki með nákvæma greiningu á því,“ segir Guðmundur Óli Gunnarsson, starfandi forstöðumaður hitaveitu Veitna. Hann segir mjög erfitt að greina nákvæmlega hvað veldur. Árið sé búið að vera nærri gráðu kaldara en árið í fyrra, fleiri notendur eru að tengjast með uppbyggingu og svo spilar öll heimaveran vegna COVID inn í. „Heitir pottar ruku út í sumar sem hefur einhver áhrif. Þegar allt þetta leggst saman býr það til þessa aukningu,“ segir Guðmundur.

Mikið hefur verið framkvæmt í hitaveitunni undanfarin ár til að mæta aukinni eftirspurn, meðal annars hefur svokölluð varmastöð í Hellisheiðarvirkjun, sem framleiðir heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, verið stækkuð. Þá hefur dælugeta kerfisins verið aukin og borholur á lághitasvæðum voru hvíldar í sumar til að auka aðgengilegan forða yfir veturinn.

Til að bregðast við kuldakastinu sem nú er í kortunum eru Veitur að hækka hitastig vatnsins sem notendur fá frá virkjunum og borholum á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ.

Guðmundur segir að uppbyggingin í borginni komi Veitum lítið á óvart. Þau útskýri ekki þessi ellefu prósent enda komi það lítið á óvart að byggð séu hús. „Þessi uppbygging sem hefur orðið er ekki að útskýra þessi ellefu prósent. Þau eru fordæmalaus. Það eru aðrir þættir sem eru að valda þessari miklu aukningu á þessu ári.“

Viðbragðsáætlun Veitna hvetur fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið svo að borgarbúar hafi nægt vatn til húshitunar en um 90 prósent af hitaveituvatni eru notuð til húshitunar. Þá bendir fyrirtækið á að þeir köldu dagar sem borgarbúar hafi upplifað undanfarið hafi verið í hæglátu veðri. Nú sé hins vegar útlit fyrir töluverðan vind sem veldur mikilli kælingu ofan á það frost sem er í kortunum.