Úr­slitin frá viður­eign Kvenna­skólans og Mennta­skólans í Reykja­vík síðast­liðinn föstu­dag koma til með að standa þrátt fyrir að upp hafi komið um á­sakanir um svindl á hendur MR. Stýri­hópur Gettu betur fundaði um at­vikið í dag og var komist að þeirri niður­stöðu að ekki hafi verið um svindl að ræða.

At­vikið sem vísað er til varð þegar MR svaraði vís­bendinga­spurningu um bann við plast­pokum en liðs­menn svöruðu spurningunni upp­runa­lega rétt áður en þeir breyttu svari sínu í frauð­plast. Þá vildu sumir meina að MR hafi fengið á­bendingu frá þjálfara liðsins úr sal og skipt því aftur yfir í plast­poka sem loka­svar.

„Svindl er alls ekki liðið“

„Reglur keppninnar eru skýrar og svindl er alls ekki liðið. Dómarar, stjórn­endur og starfs­fólk út­sendingarinnar bæði í sal og mynd­stjórn fylgjast náið með á­horf­endum í sal og verði vart við eitt­hvað ó­eðli­legt á meðan keppni stendur er spurning gerð ó­gild og ný spurning borin upp,“ segir í til­kynningu frá Gettu betur á Face­book.

Mennta­skólinn í Reykja­vík vann lið Kvenna­skólans með einu stigi, 25 stig á móti 24, og því ljóst að svarið við spurningunni hafi átt lykil­þátt í sigri MR sem er nú komið í undanúrslit. „Til að koma í veg fyrir á­lita­mál í fram­tíðinni brýnir RÚV fyrir á­horf­endum að sýna kepp­endum virðingu, kalla ekki fram í eða trufla keppnina á annan hátt,“ segir að lokum í til­kynningunni.