Í atkvæðagreiðslu hjá Sambandi sveitarfélaga síðastliðinn miðvikudag, um nýundirritaða samninga sveitarfélaga við leikskólakennara, sat Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hjá. Einnig Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki, fyrir hönd Akureyrarbæjar og Kristján Þór Magnússon Sjálfstæðismaður, bæjarstjóri Norðurþings. Meirihluti studdi málið og samþykkti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga því samninginn með fimm atkvæðum.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að þetta sé í þriðja skipti á kjörtímabilinu sem Sjálfstæðismenn í borginni styðji ekki launahækkanir á leikskólunum.

„Þetta sýnir því miður mikið skilningsleysi á því að það er ekki nóg að stórfjölga leikskólum eins og við erum að gera heldur þarf að manna þá líka,“ segir Dagur. „Í mínum huga ætti Sjálfstæðisflokkurinn að biðjast afsökunar á andstöðu sinni við kjarabætur í leikskólum í stað þess að halda áfram að sitja hjá,“ bætir hann við.

Eyþór Arnalds segir að ekki hafi verið um afgreiðslu samninganna að ræða heldur að veita samninganefndinni frekara umboð.

„Það komu upp sjónarmið um að það þyrfti að skoða málið í samræmi við lífskjarasamninga og að þess vegna gæti þetta haft áhrif á aðra aðila. Svo var líka umræða um að það þyrfti að fara í umræðu um kerfisbreytingu, skoða málin heildstætt,“ segir Eyþór.