Þeir öku­menn sem keyrðu í kvöld í sak­leysi sínu niður neðsta hluta Skóla­vörðu­stígs og beygðu inn á Lauga­veginn mættu þar lög­reglu sem greindi þeim frá því að þeir væru þarna akkúrat alls ekki í sak­leysi sínu. Þessi hluti Skóla­vörðu­stígs og Lauga­vegar er nú orðinn að göngu­götu og er lög­regla farin að sekta þá sem keyra um svæðið.

Þessi hluti gatnanna auk Vega­móta­stígs urðu að varan­legum göngu­götum þann 26. maí síðast­liðinn. Síðan hafði borið á nokkurri gagn­rýni bæði á lög­reglu og ó­bil­gjarna öku­menn sem virtust hunsa þessa nýju til­skipun Reykja­víkur­borgar og keyra göturnar. Lög­regla hefur út­skýrt málið og segist ekki hafa getað sektað fólk vegna þess að merkingar um að um­ferð væri bönnuð hafi ekki verið full­nægjandi.

Þessu var þó kippt í lag og voru komin upp skilti við göturnar síðasta þriðju­dag. Lög­reglan hefur því byrjað að sekta þá sem aka göturnar en í kvöld sátu þrír lög­reglu­menn um öku­menn við horn Skóla­vörðu­stígs og Lauga­vegar. „Við byrjuðum hægt og ró­lega á þriðju­daginn en nú hefur kannski færst meiri þungi í þetta þegar merkingar eru í lagi og að­eins búið að laga til þarna,“ segir Guð­brandur Sigurðs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá um­ferðar­deild lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ef þessi hefði verið um viku fyrr á ferðinni hefði hann sloppið við sekt fyrir sama brot!
Fréttablaðið/Magnús

Svo kallaðar sumargötur voru þá opnaðar í há­deginu í dag. Þeim var öllu heldur lokað, að minnsta kosti fyrir bíla­um­ferð. Þær götur verða göngu­götur en að­eins í sumar og verður öll bíla­um­ferð á þeim bönnuð nema fyrir vöru­af­greiðslu milli klukkan sjö og ellefu á morgnana. Sumargöturnar eru Lauga­vegur frá Frakka­stíg að Klappar­stíg og Banka­strætið frá Ingólfs­stræti að Lækjar­götu.

Guð­brandur segir þó að lög­reglan geti ekki sektað þá öku­menn sem munu keyra þessar sumargötur á næstunni. „Þar eru í rauninni engin merki nema upp­lýsinga­skildir. Mér skilst að það standi til að laga það og merkingar verði í lagi eins og á hinum stöðunum,“ segir hann. Merkin séu í fram­leiðslu og verði sett upp um leið og þau verða klár.

„En ef merkingar erku ekki í lagi sam­kvæmt reglu­gerð um um­ferðar­merkja­notkun þá kærir lög­reglan ekki. Það er grunn­for­senda að merkingum sé ekki á­bóta­vant.“

Merkingar eru loks komnar í lag á varanlegum göngugötum í miðbænum.
Fréttablaðið/Magnús