Utan­ríkis­ráð­herra Katar segir að við­ræður hafi staðið yfir við ná­granna­ríki Katars í von um að leysa pólitíska deilu sem staðið hefur yfir í þrjú ár. Undan­farin þrjú ár hafa ná­granna­ríkin Sádi Arabía, Sam­einuðu arabísku fursta­dæmin, Bahrain og Egypta­land haldið úti við­skipta- og ferða­banni í garð Katar á­samt því að skera á stjórn­mála­sam­band við Katar vegna meints stuðnings Katara við hryðju­verka­sam­tök og sam­bands Katar við Íran.

Stjórn­völd í Katar hafa alltaf neitað á­sökunum en undan­farna daga hefur Jar­ed Kus­hner, ráð­gjafi Donald Trump, frá­farandi Banda­ríkja­for­seta, farið fyrir hönd sátta­nefndar Banda­ríkjanna og fundað með krón­prins Sádi Arabíu og emírnum í Katar í von um að leysa deiluna. Sam­kvæmt heimildum Al Jazeera færðust við­ræðurnar nær sáttum eftir fundar­haldið með Kus­hner en ríkin sem hafa úti­lokað Katar hafa meðal annars krafist þess að frétta­stöðinni Al Jazeera verði lokað.

„Það er von um að við getum bundið enda á þessa krísu,“ sagði Mohammed bin Abdulra­hman Al-Thani, for­sætis- og utan­ríkis­ráð­herra Katar í sam­tali við ríkis­fjöl­miðilinn Al Jazeera í gær. „Að ljúka þessum deilum er mikil­vægt fyrir öryggið í Mið-Austur­löndunum. Við vonumst til að málið verði leyst en það er erfitt að segja hve­nær samningar nást því það eru at­riði sem deilt er um en það er okkar að leysa úr þeim og byggja upp traust á ný.“