Sáttafundur Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, VR, verkalýðsfélaganna á Húsavík, Grindavík og Akranesi stendur enn yfir í Karphúsinu. 

Fundurinn hófst klukkan 10 og nú er búist við að fundurinn standi fram á kvöld. Fyrir­hugað var í morgun var að fundurinn yrði í eina klukku­stund en tilkynnt var í dag að hann yrði framlengdur til klukkan 17. Nú er þó ljóst að fundurinn stendur enn yfir.

Eins og fyrr hefur verið greint frá í dag setti ríkissáttasemjari fjölmiðlabann á fundinn og því hafa engar fréttir borist af fundinum. 

Að öllu óbreyttu hefjast verkföll Eflingar og VR hjá bæði hótelstarfsfólki og hópbifreiðastjórum á miðnætti í kvöld.

Greint var frá því fyrr í dag að andrúmsloftið í Karphúsinu hefði verið spennuþrungið. Fólki var í dag í skipt í vinnuhópa og talið er að það hafi verið hluti af lokatilraun til að ná sáttum áður en til verkfallanna kemur á miðnætti. Fyrsta verkfallið, sem hefst á miðnætti, stendur í einn sólarhring.

Sjá einnig: Deiluaðilum skipt í hópa og fundur framlengdur

Greint var frá því á RÚV fyrr í dag að Efling hafi hafnað öllum undanþágubeiðnum varðandi verkföllin á morgun. Þar segir að um fimmtán beiðnir hafi borist og búist sé við fleirum.