Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, segir að ekki sé hægt að á­fellast Ríkis­endur­skoðun fyrir töf á gerð skýrslunnar.

„Ég held það hljóti að vera að þeir sem eru að svara spurningum Ríkis­endur­skoðunar sem beri á­byrgð á drætti ef ein­hver dráttur er,“ segir Helga Vala. Betur unnin skýrsla sem kemur seinna sé betri en fljótunnin skýrsla.

„Mér finnst ekkert að því að maður þurfi að bíða í hálfan mánuð eftir skýrslu Ríkis­endur­skoðunar ef hún verður betri og vandaðri fyrir vikið, en ég óttast að þessi mikli dráttur sé til­kominn vegna þess að það gengur erfið­lega að fá svör.“

Þá vill Helga Vala meina að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessar tafir ef sér­stök rann­sóknar­nefnd á vegum Al­þingis hefði verið stofnuð, en slík nefnd hefur um­tals­vert meiri heimildir en Ríkis­endur­skoðun til að kalla eftir upp­lýsingum.

Helga Vala var einn þeirra þing­manna sem lögðu til að slíkri nefnd væri komið í verk en við því var ekki orðið.

„Í raun og veru geta stjórn­völd hverju sinni dregið það á langinn að svara og jafn­vel svara ekki. Við höfum fengið svo­leiðis skýrslur inn til okkar á þinginu frá Ríkis­endur­skoðun þar sem þau segja bara: Því miður, við fengum því miður ekki full­nægjandi upp­lýsingar,“ segir hún.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þá vonar Helga Vala að allir séu að leggja sig fram svo að skýrslan sé sem ná­kvæmust. „En það hefði verið hægt að fara bara strax hina leiðina og fara með þetta þá leið þar sem hægt er að velta við öllum steinum.“

Spurð að því hvort þetta sé gleymt mál segist Helga Vala ekki telja að svo sé.

„Ég hef enga trú á að þetta sé eitt­hvert gleymt mál sem enginn láti sig varða. Þegar ráð­herra fer svona með valdið hverju sinni, þá er það stórt mál í hvaða landi sem er, jafn­vel Ís­landi,“ segir Helga Vala.

Ríkis­endur­skoðandi segir skýrsluna á loka­metrunum. Ein á­stæða fyrir frestun út­gáfunnar sé að um­fang sé meira en búist var við í upp­hafi. Fyrst var sagt að skýrslan yrði gefin út í júní, henni var síðan frestað í­trekað. Nú stendur til að gefa hana út um mánaða­mótin.