Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna, segir mikla sátt ríkja um lagafrumvarp um rafrettur sem samþykkt var á Alþingi í dag. Málið tók nokkrum breytingum í þinginu frá því það var fyrst lagt fram en að lokum greiddu allir 54 viðstaddir þingmenn atkvæði með frumvarpinu sem verður nú að lögum.

Markmiðið var að setja lagaumgjörð, sem ekki var til staðar, um rafrettur. Með lögunum er notkun rafretta heimil en er hún þó háð nokkrum takmörkunum. Ólafur segir í samtali við Fréttablaðið að takmarkanirnar snúi flestar að því að tryggja vernd barna. Auk þess séu tiltekin nokkur nokkur atriði sem snúi að því hvar sé óheimilt að nota retturnar.

Skammtastærðir fylgi tilskipun ESB

„Stórt séð er þetta svipað og 10. gr. tóbaksvarnalaga en þó mildari. Leyft verður að nota rafrettur á ýmsum stöðum þar sem ekki er leyfilegt að vera með sígarettur,“ segir Ólafur. Auk þess muni 0,9 prósent af söluandvirði vörunnar renna í lýðheilsusjóð en hugmyndin er að það standi straum af þeim kostnaði sem þarf til að fræða fólk um rafrettur og notkun þeirra.

Ekki sé búið að ákveða hvernig standa skuli að takmörkun skammtastærða en þær munu fylgja tilskipun Evrópusambandsins. Búist sé við því að þeim verði hnikað til og þess vegna hafi þingið og heilbrigðisráðherra talið heppilegra að búa það í reglugerð þannig ekki þyrfti að fara í gegnum lagabreytingu þegar ESB væri búið að ganga frá endanlegum viðmiðum um skammtastærðir.

Aukning í rafrettunotkun hjá börnum

Ólafur segir að nefndin hafi einnig tekið til greina upplýsingar sem fram hafa komið á síðustu vikum og mánuðum sem sýnir að notkun rafretta hér á landi hefur aukist mjög mikið. Hann segir þá staðreynd hafa vakið upp áhyggjur en aukningin er sér í lagi mikil hjá yngstu aldurshópunum. 

„Þetta vakti athygli okkar því það virðist vera öfugt á Íslandi miðað við annars staðar í heiminum. Börn virðast vera að byrja að nota rafrettur án þess að hafa reykt áður. Nefndin hafði áhyggjur af þessu og hluti af þeim viðbrögðum sem nefndin grípur til í einföldum breytingartillögum snúa að áhyggjum vegna þessa,“ segir Ólafur.

Frumvarpið hefur vakið talsverða athygli og jafnvel reiði meðal margra rafrettunotenda, gjarnan kallaðir „veiparar“. Ólafur segir gagnrýnina vera skiljanlega en málið hafi þó tekið töluverðum breytingum í þinginu. Að lokum hafi skapast sátt vegna málsins í þinginu en allir viðstaddir þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, 54 talsins.