Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi.
Stuttur aðdragandi var að þessum sögufræga atburði en þýskir herir gerðu innrás í Noreg mánuði fyrr og brutu á nokkrum vikum á bak aftur mótspyrnu norska hersins og breskra og franskra hersveita sem sendar höfðu verið til aðstoðar.
Sumt af breska herliðinu sem hrökklaðist frá Noregi kom til Íslands ásamt öðrum liðsauka í júnímánuði og hóf varnarviðbúnað. Skortur á herafla varð til þess að Kanadastjórn lagði til eitt stórfylki með tæplega 2.700 mönnum til Íslandsdvalar sumarið 1940. Sigldu flestir þeirra áfram til Bretlands um haustið þegar breskur liðsauki barst til landsins. Herafli Breta náði hámarki árið 1941 þegar um 28.000 liðsmenn landhers, flughers og flota dvöldu í landinu.
Til verndar skipaleiðinni
Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en allmikils stuðnings gætti þar við málstað Breta. Ríkisstjórn Roosevelts Bandaríkjaforseta fann leið til þess að létta undir með því að lána og leigja Bretum margvíslegan herbúnað sem þeir sóttu í bandarískar hafnir.
Mikil hætta steðjaði þó að siglingunum og hugkvæmdist forsetanum að senda bandarískt herlið til Íslands og láta Bandaríkjaflota þar með veita herskipavernd á siglingaleiðum austur á mitt Atlantshaf. Sömdu ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um það sumarið 1941 að bandarískt herlið skyldi taka við vörnum landsins og leysa breska hernámsliðið smám saman af hólmi.
Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 þegar meginliðsstyrkur þeirra hvarf heimleiðis, en breski flotinn og flugherinn, sem léku aðalhlutverk í baráttunni við þýska flotann á norðaustanverðu Atlantshafi, starfaði áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.
Hvalfjörður lék stórt hlutverk
Bandamenn höfðu mikinn viðbúnað til þess að hefta siglingar þýskra herskipa og kafbáta og verja skipaleiðir á Atlantshafi. Varnir landsins miðuðust fyrst og fremst við svæði þar sem voru hafnir, eða aðstaða til flugvallagerðar og starfsemi sjóflugvéla með vegartengingu við aðra landshluta, svo sem á Suðvesturlandi, við Húnaflóa, Eyjafjörð og á Austurlandi.
Viðbúnaður var mestur á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurhöfn var lykillinn að liðs- og birgðaflutningum til landsins. Umsvifin voru í meðallagi á Norðurlandi og fremur lítil á Austurlandi, enda vegatengingar við þá landshluta fremur frumstæðar. Bretar lögðu flugvelli í Kaldaðarnesi og Reykjavík en Bandaríkjamenn reistu stóra flugbækistöð við Keflavík, sem lék stórt hlutverk í miklum loftflutningum þeirra til Bretlands.

Eftirlitsskip og fylgdarskip skipalesta höfðu aðstöðu í Hvalfirði og áðu einnig í Seyðisfirði. Hvalfjörður lék stórt hlutverk í siglingum skipalesta með hergögn og birgðir frá Bretlandi og Bandaríkjunum til sovéskra hafna á Kólaskaga og við Hvítahaf er mest reið á, 1941 og 1942.
Heildarheraflinn í landinu var nærri 50.000 þegar mest var, sumarið 1943, og hafði um 80 prósent hans aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn sjálfir voru einungis um 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000.
Varpað í hringiðu hildarleiks
Götur höfuðborgarinnar og nærliggjandi bæja fylltust af einkennisbúnum mönnum sem hrifnir voru frá verkum sínum og varpað í hringiðu mesta hildarleiks mannkynssögunnar.
Landsmönnum þótti í fyrstu margt framandi í fari erlendu gestanna sem gerðu hlutina með sínum hætti. Undruðust þeir ýmislegt sem fylgdi varnarviðbúnaðinum og rekstri herliðsins. Hentu margir gaman að því sem ekki samræmdist þeirra eigin háttum, en gáfu ef til vill minni gaum að þeirri dauðans alvöru sem bjó að baki.
Kærkomin umskipti
Þótt þröngt væri á þingi tókst sambúð landsmanna við hina framandi gesti furðu vel. Í árslok 1942 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja og sumarið eftir var stór hluti bandaríska herliðsins fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu. Nýr og miklu fámennari liðsafli kom þá til landsins en hélt að mestu sömu leið árið 1944.
Flestir bresku og bandarísku hermennirnir sem eftir sátu í stríðslok störfuðu á Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.
Síðari heimsstyrjöldinni hefur verið lýst sem mesta umbrotatíma í sögu Íslendinga. Markaðir opnuðust í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir f lestar útflutningsafurðir á margföldu verði og hleypti það, ásamt atvinnu sem skapaðist við fjölbreytt umsvif herliðsins, af stað gríðarlegum efnahagslegum uppgangi. Umskiptin voru kærkomin eftir langvarandi stöðnun og kreppu og grunnur var lagður að nútímavæðingu og velmegun þjóðarinnar.

Íslendingar voru ekki þátttakendur í hernaðinum en bækistöðvar bandamanna og aðstaða í landinu átti þátt í að flýta fyrir sigri í styrjöldinni. Landsmenn veittu mikilvægan stuðning, t.d. með sölu matvæla og annarra framleiðsluvara sem kom Bretum afar vel.
Þótt styrjöldin færði þjóðinni auðsæld og umbætur fór hún ekki varhluta af ógnum hennar. Alls fórust 151 Íslendingur af hernaðarvöldum, svo fullvíst sé talið, og skjótur efnahagsuppgangur og herseta höfðu langvarandi þjóðfélagsumrót í för með sér.
Bandamenn misstu alls nærri 900 manns hér við land og í stríðslok hvíldu 510 erlendir hermenn og sjómenn í íslenskri mold. Þar af voru rúmlega 200 Bandaríkjamenn en líkamsleifar þeirra voru síðar fluttar til heimalandsins.
Bábiljurnar leiðréttar
Hér hefur verið stiklað á stóru um helstu staðreyndir, en margvíslegar bábiljur sem snemma fengu byr undir báða vængi heyrast enn. Er því ekki úr vegi að skýra og leiðrétta ýmislegt sem misskilningi kann að valda.
Hernámi Breta lauk formlega 22. apríl 1942 og við tók umsamin hervernd Bandaríkjanna.
Herliðið tók sér í fyrstu bólfestu í fjölmörgum byggingum sem sumar stóðu auðar, en reistu síðan herbúðir víða á leigulóðum. Engin mannvirki eða lóðir voru tekin án samninga og endurgjalds til eigenda, sem miðaðist við gangverð í landinu.
Stóraukin dýrtíð olli því þó að endurgjaldið rýrnaði þegar frá leið, en fékkst að hluta bætt í gegnum skaðabótanefndir sem í sátu fulltrúar hersins og íslenskra stjórnvalda. Þeir sem fært gátu sönnur á að hafa farið halloka í viðskiptum hlutu bætur frá ríkissjóði að styrjöldinni lokinni.
Breska orrustuskipið HMS Hood lagði ekki upp frá Hvalfirði í sína hinstu för vorið 1941, heldur var á leið þangað frá Orkneyjum þegar því var snúið til vesturs í veg fyrir þýska orrustuskipið Bismarck. Hood var grandað um það bil miðja vegu milli Reykjaness og Hvarfs á Grænlandi en ekki skammt undan Reykjanesi. Ógerlegt er talið að sprengjudrunurnar hafi borist alla leið til Reykjavíkur.
Ofmetinn fjöldi hermanna
Hermannafjöldi í landinu hljóp ekki á hundruðum þúsunda, eins og sumir landsmenn ályktuðu af umsvifunum sem þeir urðu vitni að, heldur fór mest í tæplega 50 þúsund.
Hernaðaryfirvöld gerðu reyndar í því að láta líta út fyrir að liðsaflinn væri miklu meiri, til þess að láta Þjóðverja halda að innrás í Noreg væri yfirvofandi frá Íslandi og Bretlandseyjum.
Heraflinn var minnstur á Austurlandi, þar sem hann fór mest í um 800 á Seyðisfirði en fluttist síðar að stórum hluta til Reyðarfjarðar. Þar náði hann hámarki rúmlega 900 í tíð breska, kanadíska og norska hersins árið 1942 og í rúmlega 1.200 eftir að Bandaríkjamenn höfðu tekið við haustið 1942, en var ekki mörg þúsund eins og gjarnan er haldið fram fyrir austan.
El Grillo ekki sökkt úr landi
Önnur saga að austan segir að olíubirgðaskipinu El Grillo, sem laskaðist í sprengjuárás þýskra flugvéla á skipalæginu í Seyðisfirði en sökk ekki alveg strax, hafi verið sökkt sama kvöld af hermönnum úr landi svo forðast mætti endurtekningu árásarinnar síðar.
Hið rétta er að afturhluti skipsins f laut á vélarrúminu og þunnu lofthylki (e. kofferdam) milli þess og aftasta birgðatanksins, þar til milliþilið lét undan þunganum um kvöldið og skuturinn hvarf í djúpið.
Íslendingar eru oft sagðir hafa fært hlutfallslega meiri fórnir í fjölda látinna af hernaðarvöldum en t.d. Bandaríkjamenn. Þessi staðhæfing er löngu afsönnuð. Bandaríkjamenn misstu um 2,3 af hverjum eitt þúsund íbúum á öllum vígstöðvum, en Íslendingar 151 af hernaðarorsökum svo víst verði talið, eða 1,2 á hverja eitt þúsund íbúa.
Íslendingar ekki þátttakendur
Landsmenn voru ekki þátttakendur í hildarleiknum en allmargir íslenskir sjómenn sigldu á farskipum sem fluttu nauðsynjavörur til landsins og fiskiskipum með afla til sölu á mörkuðum í Bretlandi. Einnig réðust nokkrir ungir sjómenn á erlend farskip, oftast í ævintýraleit. Því miður komust ekki allir alltaf heilir heim úr þeim ferðum, en það var fremur afleiðing, heldur en þátttaka í átökunum og reyndar engin nýlunda, enda sjómennska jafnan nokkurt hættuspil.
Þjóðverjar litu á siglingar Íslendinga til Bretlands sömu augum og bandamenn á siglingar norskra og danskra skipa á hersetnum heimaslóðum sínum, það er í þágu óvinarins og eirðu engu.
Alls fórust um 410 íslenskir sjómenn og farþegar af almennum slysförum eða hernaðarvöldum á styrjaldarárunum sex, auk fjögurra sem urðu fyrir banaskotum hermanna eða sprengjubrotum. Virðist sem sú heildartala hafi snemma verið höfð ranglega til marks um fórnir Íslendinga í samanburði við aðrar þjóðir.
Til samanburðar við þá 260 sjómenn og farþega sem ekki fórust af hernaðarvöldum, svo víst sé talið, fórust samkvæmt skýrslum Slysavarnafélags Íslands að meðaltali um 200 sjómenn á þremur sex ára tímabilum á áratugnum fyrir stríð. Að teknu tilliti til mjög aukinnar sóknar og ástands skipastólsins á stríðsárunum, má því álykta að hlutfallslegur mannskaði af öllum orsökum á sjó, hafi í reynd verið lítið tíðari en áratugina á undan.
Lítinn séns í íslenskar konur
Erlendu hermönnunum varð alls ekki eins vel ágengt í samskiptum við íslenskar stúlkur og oft er látið í veðri vaka. „Ástandið“ svonefnda var raunar ekkert frábrugðið því sem jafnan gerðist á stöðum sem ungir vermenn hópuðust til eða í síldarplássum, þótt fjöldi aðkomumanna næði óþekktum hæðum á stríðsárunum.
Langflestir hermannanna kváðust ekki eiga neinn „séns“ í stúlkurnar, sem fæstar virtu þá viðlits.þar sem hún var séð.

Bandaríkjaher sem fjölmennastur var þegar á leið, lagði bann við giftingum liðsmanna sinna. Ákvörðunin var ekki einskorðuð við Ísland og byggðist á því að stjórnvöld vildu forðast að þurfa að annast framfærslu fjölskyldna sem stofnað væri til með óvissa framtíð og e.t.v. í einmanaleika fjarri heimahögum.
Allmikið er til af lýsingum á viðhorfi hermanna til landkosta eða ókosta og dvölinni í landinu almennt, en fremur lítið um viðhorf til landsmanna. Þetta stafar einfaldlega af því að sárafáir kynntust í raun, eða áttu náin samtöl við, landsmenn.
Nú gerir fólk sér vart grein fyrir hversu tungumálakunnáttan var lítil og erfiðlega gekk að eiga gagnleg samtöl þannig að fólk kynntist högum hvers annars í raun. Flest viðhorfin á báða bóga eru því byggð á því sem fólk sá úr fjarlægð, og upplifði í einhverjum tilvikum, en ekki síst á sögusögnum og getgátum sem gengu manna á milli í fásinninu, enda fréttaflutningi strangar skorður settar.
Báru hver öðrum vel söguna
Þeir sem kynntust í raun sér um líkum, til dæmis liðsforingjar eða menntamenn, báru hverjir öðrum jafnan vel söguna og sama er að segja um þá sem áttu í viðskiptum eða bjuggu í návígi, til dæmis á smærri varðstöðvum á landsbyggðinni.
Herliðið flutti ógrynni tækja og búnaðar til landsins við uppbyggingu heraflans, til dæmis rúmlega 4.000 bifreiðar og önnur farartæki auk fjölda flugvéla, og reisti um 12.000 braggabyggingar ásamt 1.000 smærri stein- og timburhús í rúmlega 300 íbúðahverfum. Þrjú þúsund farartæki voru flutt aftur úr landi ásamt margvíslegum búnaði.
Árið 1944 samdist svo við ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna um að íslenska ríkið annaðist kaup og endursölu á öllum fasteignum og búnaði sem ekki yrði fjarlægður, til þess að tryggja innheimtu lögboðinna aðflutningsgjalda. Fékk ríkissjóður eignirnar á vægu verði en yfirtók jafnframt skuldbindingar gagnvart landeigendum. Var Sölunefnd setuliðseigna sett á fót til að annast verkið ásamt því að bæta skemmdir á landeignum fyrir ágóða af endursölu til landsmanna.
Í allmörgum tilvikum fengu landeigendur greitt fyrir að sjá sjálfir um landlögun en heyktust sumir á því og eru það nánast einu staðirnir þar sem mannvirki eða minjar standa eftir frá hersetunni, utan flugvallanna í Reykjavík og Keflavík og olíu- og hvalstöðvarinnar í Hvalfirði, sem voru áfram í notkun.
Heyrst hefur að hermannafjöldi í Hvalfirði hafi skipt tugum þúsunda, en hið rétta er að bækistöðvar í firðinum voru fremur fáliðaðar en fjöldi sjóliða og sjómanna á skipum sem áðu þar gat auðvitað hlaupið á þúsundum, þótt fæstir fengju landgönguleyfi.
Í Hvalfirði gekk lengi sú saga að við lendingu léttbáta, skammt innan við Hvítanes, hafi verkamenn verið látnir smíða forláta tröppur fyrir komu Winstons Churchills, forsætisráðherra Breta, sem hafði viðdvöl á Íslandi eina dagstund sumarið 1941. Sagan er ólíkleg sökum þeirrar leyndar sem hvíldi yfir komunni og fullvíst er að Churchill steig alls ekki á land í Hvalfirði heldur einungis í Reykjavík.
Olnbogi Churchills
Sú saga er einnig útbreidd að sama dag hafi Churchill tyllt olnboganum á forláta arinhleðslu og mundað vindilinn fræga í sölum gamla flugvallarhótelsins við Nauthólsvík. Það er auðvitað ómögulegt því hótelið var ekki tekið í notkun fyrr en sumarið 1945 og staðfest er að Churchill heimsótti ekki flugvallarsvæðið heldur leit einungis yfir það ofan af Öskjuhlíð. Hótelið samanstóð af nokkrum steinbyggingum sem enn standa og braggaþyrpingu sem er löngu horfin. Bretar nefndu hótelið Winston eftir forsætisráðherranum og gæti þessi skemmtilega saga tengst því, en Íslendingar nefndu það Hótel Ritz eftir að þeir tóku við rekstrinum.
Talandi um bragga í Nauthólsvík eins og frægt er orðið vegna kostnaðar við „endurnýjun" á vegum Reykjavíkurborgar, er vert að taka fram að umræddur braggi var áfastur steinhúsum gamla flugvallarhótelsins og var, líkt og aðrir slíkir, einungis færanlegt einingahús sem standa skyldi um stuttan tíma.
Bragginn var heldur alls ekki endurnýjaður, en nýtt hús með bogalagi reist í hans stað með öllum þeim nýjungum og skilyrðum sem nútíma byggingarreglur krefjast. Auk þess voru að minnsta kosti tvö steinhúsanna endurnýjuð frá grunni, svo þau uppfylltu kröfur um samkomuhald og veitingarekstur.
Engir særðir hermenn að utan
Um hríð var útbreidd sú saga að stórir herspítalar hefðu verið reistir á Íslandi fyrir hermenn sem særðust á meginlandi Evrópu eftir innrás bandamanna í Normandí sumarið 1944. Herliðið reisti reyndar braggaþyrpingar fyrir sjúkraskýli og spítala í herbúðum sínum en einungis í samræmi við fjölda hermanna í landinu hverju sinni. Liðsaflinn dróst skjótt saman árið 1943 og því ekki að undra þótt landsmenn hafi brotið heilann um tilgang svo umfangsmikilla salarkynna, sem skyndilega stóðu auð og yfirgefin.
Sömu vangaveltur eru þekktar í tengslum við bandarísku flugbækistöðina í Narsarsuaq á Grænlandi, þar sem allstór spítali reis fyrir herlið á stríðsárunum og var endurnýjaður í Kóreustríðinu, að sögn til líknarmeðferðar illa særðra hermanna, sem herinn vildi að leynt færi.
Draugur kveðinn niður
Ýmsar sögur hafa einnig gengið af reimleikum tengdum hermönnum eða hjúkrunarkonum sem látist hafi á stríðsárunum og jafnvel spítalabröggum eða efni úr þeim sem flutt var á milli landshluta.
Þekkt er saga af bandarískri hjúkrunarkonu, ungri og myndarlegri, sem sögð er hafa látist í bifreiðaslysi í Mosfellssveit og gengið aftur á þeim slóðum. Dauðsföll í röðum herliðsins eru vel skilgreind í heimildum hernaðaryfirvalda og sýna að engin hjúkrunarkona hersins lést á Íslandi á stríðsárunum.
Ekki verða bornar brigður á frásagnir fólks af reimleikum en helst er að ætla að afturgengna hjúkrunarkonan unga og myndarlega hafi ef til vill ekki verið öll
