Bretar her­námu Ís­land 10. maí 1940 til þess að hindra að Þjóð­verjar kæmu sér upp flug- og flota­bæki­stöðvum í landinu sem ógnað gætu Bret­lands­eyjum og skipa­leiðum á Norður-At­lants­hafi.

Stuttur að­dragandi var að þessum sögu­fræga at­burði en þýskir herir gerðu inn­rás í Noreg mánuði fyrr og brutu á nokkrum vikum á bak aftur mót­spyrnu norska hersins og breskra og franskra her­sveita sem sendar höfðu verið til að­stoðar.

Sumt af breska her­liðinu sem hrökklaðist frá Noregi kom til Ís­lands á­samt öðrum liðs­auka í júní­mánuði og hóf varnar­við­búnað. Skortur á her­afla varð til þess að Kana­da­stjórn lagði til eitt stór­fylki með tæp­lega 2.700 mönnum til Ís­lands­dvalar sumarið 1940. Sigldu flestir þeirra á­fram til Bret­lands um haustið þegar breskur liðs­auki barst til landsins. Her­afli Breta náði há­marki árið 1941 þegar um 28.000 liðs­menn land­hers, flug­hers og flota dvöldu í landinu.

Til verndar skipa­leiðinni

Banda­ríkin voru hlut­laus í styrj­öldinni til árs­loka 1941 en all­mikils stuðnings gætti þar við mál­stað Breta. Ríkis­stjórn Roose­velts Banda­ríkja­for­seta fann leið til þess að létta undir með því að lána og leigja Bretum marg­vís­legan her­búnað sem þeir sóttu í banda­rískar hafnir.

Mikil hætta steðjaði þó að siglingunum og hug­kvæmdist for­setanum að senda banda­rískt her­lið til Ís­lands og láta Banda­ríkja­flota þar með veita her­skipa­vernd á siglinga­leiðum austur á mitt At­lants­haf. Sömdu ríkis­stjórnir Ís­lands, Bret­lands og Banda­ríkjanna um það sumarið 1941 að banda­rískt her­lið skyldi taka við vörnum landsins og leysa breska her­náms­liðið smám saman af hólmi.

Her­námi Breta lauk form­lega 22. apríl 1942 þegar megin­liðs­styrkur þeirra hvarf heim­leiðis, en breski flotinn og flug­herinn, sem léku aðal­hlut­verk í bar­áttunni við þýska flotann á norð­austan­verðu At­lants­hafi, starfaði á­fram í landinu með Banda­ríkja­her þar til eftir stríðs­lok.

Hval­fjörður lék stórt hlut­verk

Banda­menn höfðu mikinn við­búnað til þess að hefta siglingar þýskra her­skipa og kaf­báta og verja skipa­leiðir á At­lants­hafi. Varnir landsins miðuðust fyrst og fremst við svæði þar sem voru hafnir, eða að­staða til flug­valla­gerðar og starf­semi sjó­flug­véla með vegar­tengingu við aðra lands­hluta, svo sem á Suð­vestur­landi, við Húna­flóa, Eyja­fjörð og á Austur­landi.

Við­búnaður var mestur á höfuð­borgar­svæðinu, en Reykja­víkur­höfn var lykillinn að liðs- og birgða­flutningum til landsins. Um­svifin voru í meðal­lagi á Norður­landi og fremur lítil á Austur­landi, enda vega­tengingar við þá lands­hluta fremur frum­stæðar. Bretar lögðu flug­velli í Kaldaðar­nesi og Reykja­vík en Banda­ríkja­menn reistu stóra flug­bæki­stöð við Kefla­vík, sem lék stórt hlut­verk í miklum loft­flutningum þeirra til Bret­lands.

Eftir­lits­skip og fylgdar­skip skipa­lesta höfðu að­stöðu í Hval­firði og áðu einnig í Seyðis­firði. Hval­fjörður lék stórt hlut­verk í siglingum skipa­lesta með her­gögn og birgðir frá Bret­landi og Banda­ríkjunum til sovéskra hafna á Kóla­skaga og við Hvíta­haf er mest reið á, 1941 og 1942.

Heildar­her­aflinn í landinu var nærri 50.000 þegar mest var, sumarið 1943, og hafði um 80 prósent hans að­setur á höfuð­borgar­svæðinu og Suð­vestur­landi. Lands­menn sjálfir voru einungis um 120.000 í upp­hafi her­námsins og í­búar Reykja­víkur um 40.000.

Varpað í hringiðu hildar­leiks

Götur höfuð­borgarinnar og nær­liggjandi bæja fylltust af ein­kennis­búnum mönnum sem hrifnir voru frá verkum sínum og varpað í hringiðu mesta hildar­leiks mann­kyns­sögunnar.

Lands­mönnum þótti í fyrstu margt framandi í fari er­lendu gestanna sem gerðu hlutina með sínum hætti. Undruðust þeir ýmis­legt sem fylgdi varnar­við­búnaðinum og rekstri her­liðsins. Hentu margir gaman að því sem ekki sam­ræmdist þeirra eigin háttum, en gáfu ef til vill minni gaum að þeirri dauðans al­vöru sem bjó að baki.

Kær­komin um­skipti

Þótt þröngt væri á þingi tókst sam­búð lands­manna við hina framandi gesti furðu vel. Í árs­lok 1942 var ekki lengur talin hætta á inn­rás Þjóð­verja og sumarið eftir var stór hluti banda­ríska her­liðsins fluttur til Bret­lands til þjálfunar fyrir inn­rásina á megin­land Evrópu. Nýr og miklu fá­mennari liðs­afli kom þá til landsins en hélt að mestu sömu leið árið 1944.

Flestir bresku og banda­rísku her­mennirnir sem eftir sátu í stríðs­lok störfuðu á Reykja­víkur- og Kefla­víkur­flug­velli og hurfu þeir síðustu til síns heima vorið 1947.

Síðari heims­styrj­öldinni hefur verið lýst sem mesta um­brota­tíma í sögu Ís­lendinga. Markaðir opnuðust í Bret­landi og Banda­ríkjunum fyrir f lestar út­flutnings­af­urðir á marg­földu verði og hleypti það, á­samt at­vinnu sem skapaðist við fjöl­breytt um­svif her­liðsins, af stað gríðar­legum efna­hags­legum upp­gangi. Um­skiptin voru kær­komin eftir lang­varandi stöðnun og kreppu og grunnur var lagður að nú­tíma­væðingu og vel­megun þjóðarinnar.

Ís­lendingar voru ekki þátt­tak­endur í hernaðinum en bæki­stöðvar banda­manna og að­staða í landinu átti þátt í að flýta fyrir sigri í styrj­öldinni. Lands­menn veittu mikil­vægan stuðning, t.d. með sölu mat­væla og annarra fram­leiðslu­vara sem kom Bretum afar vel.

Þótt styrj­öldin færði þjóðinni auð­sæld og um­bætur fór hún ekki var­hluta af ógnum hennar. Alls fórust 151 Ís­lendingur af hernaðar­völdum, svo full­víst sé talið, og skjótur efna­hags­upp­gangur og her­seta höfðu lang­varandi þjóð­fé­lags­um­rót í för með sér.

Banda­menn misstu alls nærri 900 manns hér við land og í stríðs­lok hvíldu 510 er­lendir her­menn og sjó­menn í ís­lenskri mold. Þar af voru rúm­lega 200 Banda­ríkja­menn en líkams­leifar þeirra voru síðar fluttar til heima­landsins.

Bá­biljurnar leið­réttar

Hér hefur verið stiklað á stóru um helstu stað­reyndir, en marg­vís­legar bá­biljur sem snemma fengu byr undir báða vængi heyrast enn. Er því ekki úr vegi að skýra og leið­rétta ýmis­legt sem mis­skilningi kann að valda.

Her­námi Breta lauk form­lega 22. apríl 1942 og við tók um­samin her­vernd Banda­ríkjanna.

Her­liðið tók sér í fyrstu ból­festu í fjöl­mörgum byggingum sem sumar stóðu auðar, en reistu síðan her­búðir víða á leigu­lóðum. Engin mann­virki eða lóðir voru tekin án samninga og endur­gjalds til eig­enda, sem miðaðist við gang­verð í landinu.

Stór­aukin dýr­tíð olli því þó að endur­gjaldið rýrnaði þegar frá leið, en fékkst að hluta bætt í gegnum skaða­bóta­nefndir sem í sátu full­trúar hersins og ís­lenskra stjórn­valda. Þeir sem fært gátu sönnur á að hafa farið hall­oka í við­skiptum hlutu bætur frá ríkis­sjóði að styrj­öldinni lokinni.

Breska orrustu­skipið HMS Hood lagði ekki upp frá Hval­firði í sína hinstu för vorið 1941, heldur var á leið þangað frá Orkn­eyjum þegar því var snúið til vesturs í veg fyrir þýska orrustu­skipið Bis­marck. Hood var grandað um það bil miðja vegu milli Reykja­ness og Hvarfs á Græn­landi en ekki skammt undan Reykja­nesi. Ó­ger­legt er talið að sprengju­drunurnar hafi borist alla leið til Reykja­víkur.

Of­metinn fjöldi her­manna

Her­manna­fjöldi í landinu hljóp ekki á hundruðum þúsunda, eins og sumir lands­menn á­lyktuðu af um­svifunum sem þeir urðu vitni að, heldur fór mest í tæp­lega 50 þúsund.

Hernaðar­yfir­völd gerðu reyndar í því að láta líta út fyrir að liðs­aflinn væri miklu meiri, til þess að láta Þjóð­verja halda að inn­rás í Noreg væri yfir­vofandi frá Ís­landi og Bret­lands­eyjum.

Her­aflinn var minnstur á Austur­landi, þar sem hann fór mest í um 800 á Seyðis­firði en fluttist síðar að stórum hluta til Reyðar­fjarðar. Þar náði hann há­marki rúm­lega 900 í tíð breska, kanadíska og norska hersins árið 1942 og í rúm­lega 1.200 eftir að Banda­ríkja­menn höfðu tekið við haustið 1942, en var ekki mörg þúsund eins og gjarnan er haldið fram fyrir austan.

El Grill­o ekki sökkt úr landi

Önnur saga að austan segir að olíu­birgða­skipinu El Grill­o, sem laskaðist í sprengju­á­rás þýskra flug­véla á skipa­læginu í Seyðis­firði en sökk ekki alveg strax, hafi verið sökkt sama kvöld af her­mönnum úr landi svo forðast mætti endur­tekningu á­rásarinnar síðar.

Hið rétta er að aftur­hluti skipsins f laut á vélar­rúminu og þunnu loft­hylki (e. koffer­dam) milli þess og aftasta birgða­tanksins, þar til milli­þilið lét undan þunganum um kvöldið og skuturinn hvarf í djúpið.

Ís­lendingar eru oft sagðir hafa fært hlut­falls­lega meiri fórnir í fjölda látinna af hernaðar­völdum en t.d. Banda­ríkja­menn. Þessi stað­hæfing er löngu af­sönnuð. Banda­ríkja­menn misstu um 2,3 af hverjum eitt þúsund í­búum á öllum víg­stöðvum, en Ís­lendingar 151 af hernaðar­or­sökum svo víst verði talið, eða 1,2 á hverja eitt þúsund íbúa.

Ís­lendingar ekki þátt­tak­endur

Lands­menn voru ekki þátt­tak­endur í hildar­leiknum en all­margir ís­lenskir sjó­menn sigldu á far­skipum sem fluttu nauð­synja­vörur til landsins og fiski­skipum með afla til sölu á mörkuðum í Bret­landi. Einnig réðust nokkrir ungir sjó­menn á er­lend far­skip, oftast í ævin­týra­leit. Því miður komust ekki allir alltaf heilir heim úr þeim ferðum, en það var fremur af­leiðing, heldur en þátt­taka í á­tökunum og reyndar engin ný­lunda, enda sjó­mennska jafnan nokkurt hættu­spil.

Þjóð­verjar litu á siglingar Ís­lendinga til Bret­lands sömu augum og banda­menn á siglingar norskra og danskra skipa á her­setnum heima­slóðum sínum, það er í þágu ó­vinarins og eirðu engu.

Alls fórust um 410 ís­lenskir sjó­menn og far­þegar af al­mennum slys­förum eða hernaðar­völdum á styrj­aldar­árunum sex, auk fjögurra sem urðu fyrir bana­skotum her­manna eða sprengju­brotum. Virðist sem sú heildar­tala hafi snemma verið höfð rang­lega til marks um fórnir Ís­lendinga í saman­burði við aðrar þjóðir.

Til saman­burðar við þá 260 sjó­menn og far­þega sem ekki fórust af hernaðar­völdum, svo víst sé talið, fórust sam­kvæmt skýrslum Slysa­varna­fé­lags Ís­lands að meðal­tali um 200 sjó­menn á þremur sex ára tíma­bilum á ára­tugnum fyrir stríð. Að teknu til­liti til mjög aukinnar sóknar og á­stands skipa­stólsins á stríðs­árunum, má því á­lykta að hlut­falls­legur mann­skaði af öllum or­sökum á sjó, hafi í reynd verið lítið tíðari en ára­tugina á undan.

Lítinn séns í ís­lenskar konur

Er­lendu her­mönnunum varð alls ekki eins vel á­gengt í sam­skiptum við ís­lenskar stúlkur og oft er látið í veðri vaka. „Á­standið“ svo­nefnda var raunar ekkert frá­brugðið því sem jafnan gerðist á stöðum sem ungir ver­menn hópuðust til eða í síldar­plássum, þótt fjöldi að­komu­manna næði ó­þekktum hæðum á stríðs­árunum.

Lang­flestir her­mannanna kváðust ekki eiga neinn „séns“ í stúlkurnar, sem fæstar virtu þá við­lits.þar sem hún var séð.

Banda­ríkja­her sem fjöl­mennastur var þegar á leið, lagði bann við giftingum liðs­manna sinna. Á­kvörðunin var ekki eins­korðuð við Ís­land og byggðist á því að stjórn­völd vildu forðast að þurfa að annast fram­færslu fjöl­skyldna sem stofnað væri til með ó­vissa fram­tíð og e.t.v. í ein­mana­leika fjarri heima­högum.

All­mikið er til af lýsingum á við­horfi her­manna til land­kosta eða ó­kosta og dvölinni í landinu al­mennt, en fremur lítið um við­horf til lands­manna. Þetta stafar ein­fald­lega af því að sára­fáir kynntust í raun, eða áttu náin sam­töl við, lands­menn.

Nú gerir fólk sér vart grein fyrir hversu tungu­mála­kunn­áttan var lítil og erfið­lega gekk að eiga gagn­leg sam­töl þannig að fólk kynntist högum hvers annars í raun. Flest við­horfin á báða bóga eru því byggð á því sem fólk sá úr fjar­lægð, og upp­lifði í ein­hverjum til­vikum, en ekki síst á sögu­sögnum og get­gátum sem gengu manna á milli í fá­sinninu, enda frétta­flutningi strangar skorður settar.

Báru hver öðrum vel söguna

Þeir sem kynntust í raun sér um líkum, til dæmis liðs­foringjar eða mennta­menn, báru hverjir öðrum jafnan vel söguna og sama er að segja um þá sem áttu í við­skiptum eða bjuggu í ná­vígi, til dæmis á smærri varð­stöðvum á lands­byggðinni.

Her­liðið flutti ó­grynni tækja og búnaðar til landsins við upp­byggingu her­aflans, til dæmis rúm­lega 4.000 bif­reiðar og önnur farar­tæki auk fjölda flug­véla, og reisti um 12.000 bragga­byggingar á­samt 1.000 smærri stein- og timbur­hús í rúm­lega 300 í­búða­hverfum. Þrjú þúsund farar­tæki voru flutt aftur úr landi á­samt marg­vís­legum búnaði.

Árið 1944 samdist svo við ríkis­stjórnir Bret­lands og Banda­ríkjanna um að ís­lenska ríkið annaðist kaup og endur­sölu á öllum fast­eignum og búnaði sem ekki yrði fjar­lægður, til þess að tryggja inn­heimtu lög­boðinna að­flutnings­gjalda. Fékk ríkis­sjóður eignirnar á vægu verði en yfir­tók jafn­framt skuld­bindingar gagn­vart land­eig­endum. Var Sölu­nefnd setu­liðs­eigna sett á fót til að annast verkið á­samt því að bæta skemmdir á land­eignum fyrir á­góða af endur­sölu til lands­manna.

Í all­mörgum til­vikum fengu land­eig­endur greitt fyrir að sjá sjálfir um land­lögun en heyktust sumir á því og eru það nánast einu staðirnir þar sem mann­virki eða minjar standa eftir frá her­setunni, utan flug­vallanna í Reykja­vík og Kefla­vík og olíu- og hval­stöðvarinnar í Hval­firði, sem voru á­fram í notkun.

Heyrst hefur að her­manna­fjöldi í Hval­firði hafi skipt tugum þúsunda, en hið rétta er að bæki­stöðvar í firðinum voru fremur fá­liðaðar en fjöldi sjó­liða og sjó­manna á skipum sem áðu þar gat auð­vitað hlaupið á þúsundum, þótt fæstir fengju land­göngu­leyfi.

Í Hval­firði gekk lengi sú saga að við lendingu létt­báta, skammt innan við Hvíta­nes, hafi verka­menn verið látnir smíða for­láta tröppur fyrir komu Win­stons Churchills, for­sætis­ráð­herra Breta, sem hafði við­dvöl á Ís­landi eina dag­stund sumarið 1941. Sagan er ó­lík­leg sökum þeirrar leyndar sem hvíldi yfir komunni og full­víst er að Churchill steig alls ekki á land í Hval­firði heldur einungis í Reykja­vík.

Oln­bogi Churchills

Sú saga er einnig út­breidd að sama dag hafi Churchill tyllt oln­boganum á for­láta arin­hleðslu og mundað vindilinn fræga í sölum gamla flug­vallar­hótelsins við Naut­hóls­vík. Það er auð­vitað ó­mögu­legt því hótelið var ekki tekið í notkun fyrr en sumarið 1945 og stað­fest er að Churchill heim­sótti ekki flug­vallar­svæðið heldur leit einungis yfir það ofan af Öskju­hlíð. Hótelið saman­stóð af nokkrum stein­byggingum sem enn standa og bragga­þyrpingu sem er löngu horfin. Bretar nefndu hótelið Win­ston eftir for­sætis­ráð­herranum og gæti þessi skemmti­lega saga tengst því, en Ís­lendingar nefndu það Hótel Ritz eftir að þeir tóku við rekstrinum.

Talandi um bragga í Naut­hóls­vík eins og frægt er orðið vegna kostnaðar við „endur­nýjun" á vegum Reykja­víkur­borgar, er vert að taka fram að um­ræddur braggi var á­fastur stein­húsum gamla flug­vallar­hótelsins og var, líkt og aðrir slíkir, einungis færan­legt eininga­hús sem standa skyldi um stuttan tíma.

Bragginn var heldur alls ekki endur­nýjaður, en nýtt hús með boga­lagi reist í hans stað með öllum þeim nýjungum og skil­yrðum sem nú­tíma byggingar­reglur krefjast. Auk þess voru að minnsta kosti tvö stein­húsanna endur­nýjuð frá grunni, svo þau upp­fylltu kröfur um sam­komu­hald og veitinga­rekstur.

Engir særðir her­menn að utan

Um hríð var út­breidd sú saga að stórir her­spítalar hefðu verið reistir á Ís­landi fyrir her­menn sem særðust á megin­landi Evrópu eftir inn­rás banda­manna í Normandí sumarið 1944. Her­liðið reisti reyndar bragga­þyrpingar fyrir sjúkra­skýli og spítala í her­búðum sínum en einungis í sam­ræmi við fjölda her­manna í landinu hverju sinni. Liðs­aflinn dróst skjótt saman árið 1943 og því ekki að undra þótt lands­menn hafi brotið heilann um til­gang svo um­fangs­mikilla salar­kynna, sem skyndi­lega stóðu auð og yfir­gefin.

Sömu vanga­veltur eru þekktar í tengslum við banda­rísku flug­bæki­stöðina í Narsar­su­aq á Græn­landi, þar sem all­stór spítali reis fyrir her­lið á stríðs­árunum og var endur­nýjaður í Kóreu­stríðinu, að sögn til líknar­með­ferðar illa særðra her­manna, sem herinn vildi að leynt færi.

Draugur kveðinn niður

Ýmsar sögur hafa einnig gengið af reim­leikum tengdum her­mönnum eða hjúkrunar­konum sem látist hafi á stríðs­árunum og jafn­vel spítala­bröggum eða efni úr þeim sem flutt var á milli lands­hluta.

Þekkt er saga af banda­rískri hjúkrunar­konu, ungri og myndar­legri, sem sögð er hafa látist í bif­reiða­slysi í Mos­fells­sveit og gengið aftur á þeim slóðum. Dauðs­föll í röðum her­liðsins eru vel skil­greind í heimildum hernaðar­yfir­valda og sýna að engin hjúkrunar­kona hersins lést á Ís­landi á stríðs­árunum.

Ekki verða bornar brigður á frá­sagnir fólks af reim­leikum en helst er að ætla að aftur­gengna hjúkrunar­konan unga og myndar­lega hafi ef til vill ekki verið öll