VR hefur náð samkomulagi við Lífeyrissjóð verzlunarmanna og fráfarandi stjórnarmenn lífeyrissjóðsins sem tilnefndir voru af VR. Þetta kemur fram í tilkynningu sem VR sendi frá sér í kvöld.

Stjórnarmennirnir sem sitja nú í stjórn lífeyrissjóðs munu láta af störfum. Nýir stjórnarmenn munu taka sæti samkvæmt ákvörðun VR frá 14. ágúst síðastliðnum. Á þeim fundi var ákveðið að skipa full­trúa í stjórn LV til bráðabirgða í sam­ræmi við álit Fjármálaeftirlitsins.

VR stefndi Fjármálaeftirlitinu (FME) til Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir að viðurkenna ekki lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna, sem VR tilnefndi, í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Það dómsmál verður fellt niður.

„VR fellst á sjónarmið sem fram hafa komið af hálfu lífeyrissjóðsins og Fjármálaeftirlitsins um að óæskilegt sé að þeir sem fara með vald til tilnefningar í stjórn sjóðsins hlutist til um ákvarðanir sjóðsstjórnar með því að skipta út stjórnarmönnum áður en kjörtímabili þeirra lýkur og vonar að slík inngrip heyri nú sögunni til,“ segir í tilkynningunni.

„VR lýsir yfir mikilli ánægju með þessi málalok enda nauðsynlegt að ljúka deilu VR við sjóðinn og Fjármálaeftirlitið sem fyrst og koma ró á starfsemi sjóðsins. Allir aðilar hafa haft hagsmuni sjóðsins í fyrirrúmi og þessi málalok eru gerð í sátt allra aðila með framtíð sjóðsins að leiðarljósi.“

VR þakkar fráfarandi stjórnarmönnum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir vel unnin störf í þágu sjóðsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti flýtimeðferð í dómsmáli VR á hendur Fjármálaeftirlitsins og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna síðastliðinn júlí. VR vildi ógilda ákvörðun FME um að þeir stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem tilkynntir voru til FME í mars síðastliðinn væri það enn.