Maurice Hastings, 69 ára karlmaður í Kaliforníu í Bandaríkjunum, getur nú um frjálst höfuð strokið eftir að hafa setið saklaus á bak við lás og slá frá árinu 1983.
Hastings var sakfelldur fyrir hrottafengið morð á hinni þrítugu Robertu Wydermyer sama ár. Var henni nauðgað áður en henni var ráðinn bani með skotvopni.
DNA-rannsókn leiddi í ljós að Hastings var hvergi nærri þegar Roberta var myrt því DNA-snið annars manns, sem lést í fangelsi árið 2020, fannst á líki hennar.
„Mig dreymdi um það í mörg ár að þessi dagur myndi koma,“ sagði Hastings á blaðamannafundi á föstudag, en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið.
Hastings sagðist ekki ætla að bera kala til einhvers vegna málsins heldur njóta þess að lifa lífi sínu meðan hann getur.
Hann hélt ávallt fram sakleysi sínu í málinu og reyndi að fá það endurupptekið árið 2000. Saksóknaraembættið hafnaði aftur á móti beiðni hans um nýja DNA-rannsókn á þeim tíma.