Sasú flaug upp á stjörnuhimininn í hinni sívinsælu Disney-mynd, Konungur Ljónanna. Nú stendur öll tegundin hans á barmi útrýmingar. Ný rannsókn segir sökina vera hnattræna hlýnun.
Tegundin sem rannsökuð var heitir á ensku southern yellow-billed hornbill, sem á íslensku gæti fengið nafnið suðlægur gulhyrndur nashyrningsfugl. Í Konungi Ljónanna er Sasú ráðgjafi ljónahjarðar Simba, rauðhyrndur nashyrningsfugl, náskyld tegund.
Erfiðlega hefur gengið fyrir nashyrningsfugla að eignast afkvæmi vegna hækkandi hitastigs, samkvæmt rannsókninni. Nicholas Pattinson, einn rannsakendanna, segir hitabreytingar hafa neikvæð áhrif á hegðun, heilsu, tímgun og lifun fjölda fugla, spendýra og skriðdýra um allan heim.

Til dæmis hafa fleiri og fleiri dæmi komið fram um skyndilegan fjöldadauða tegunda sem hafa átt sér stað á aðeins örfáum dögum.
Afkvæmafjöldi meðal suðrænna gulhyrndra nashyrningsfugla við Kuruman-fljót í suður Kalahari eyðimörkinni hefur hríðfallið á undanförnum tólf árum, afleiðing af hækkandi hitastigi. Rannsóknin skoðaði tímabilið frá 2008 til 2019.
Hækkað hitastig gerði erfiðara fyrir fuglana að safna mat og viðhalda líkamsþyngd, sem hvoru tveggja minnkar möguleikann á því að eignast afkvæmi.
Haldi hitastig áfram að hækka með sama hætti segja rannsakendur að fuglinum myndi reynast ómögulegt að eignast afkvæmi allt tímgunartímabilið árið 2027.