Tap skandinavíska flugfélagsins SAS síðustu sex mánuði nemur rúmlega þremur milljörðum danskra króna sem jafngildir rúmlega 60 milljörðum íslenskra króna. Þetta kemur fram í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs sem birt var í gær.

Eigið fé félagsins er nánast horfið og viðurkennir Simon Pauck Han­s­en, yfirmaður SAS í Danmörku, að staðan sé afar slæm. Í samtali við DR segir hann að SAS sé eins og flugheimurinn allur í sinni stærstu krísu.

„Við töpuðum meira en tveimur milljónum farþega í apríl og höfum tapað rúmlega fimm milljónum farþega í faraldrinum,“ segir hann.

Samdrátturinn í fjölda farþega í apríl var 96 prósent frá fyrra ári og 60 prósent í mars.

Félagið hefur fengið vilyrði um lán upp á rúmlega tvo milljarða danskra króna frá danska og sænska ríkinu sem eru tveir stærstu eigendur félagsins. Sænska ríkið á 14,8 prósenta hlut og það danska á 14,2 prósent.

Hansen segir að frekari aðstoð þurfi að koma til eigi flugfélagið að lifa af. „Við erum í viðræðum við stærstu eigendurna og við munum þurfa meiri ríkisaðstoð ef okkur á að takast að komast í gegnum þetta,“ segir Hansen.

DR hefur eftir greinanda hjá Sydbank-bankanum að hann telji SAS vera á höttunum eftir um sjö milljörðum danskra króna.

Í uppgjörinu kemur einnig fram að félagið hyggist grípa til sparnaðarráðstafana sem skila eigi fimm milljörðum sænskra króna fram til ársins 2022. Það jafngildir rúmlega 71 milljarði íslenskra króna.

Þeim markmiðum á meðal annars að ná með uppsögnum um fimm þúsund starfsmanna en þeir eru um ellefu þúsund í dag. – sar