Landspítalinn hefur þurft að grípa til uppsagna upp á síðkastið en ekki er ljóst hversu mörgum hefur verið sagt upp. RÚV greinir frá.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, greinir frá þeim aðhaldsaðgerðum sem hófust á spítalanum í haust í forstjórapistli sem hann birti síðastliðinn föstudag.

„Fyrir lá frá byrjun að í ljósi umfangsmikillar aðhaldskröfu færi ekkert í rekstrinum varhluta af þessum aðgerðum. Á stofnun eins og Landspítala þar sem launakostnaður er ríflega 70% rekstrarkostnaðar er augljóst að ekki verður komist hjá því að áhrifa gæti í launum starfsmanna enda þótt ströng aðhaldskrafa sé á öðrum rekstrarliðum,“ segir Páll.

Hann segir upphaf aðgerðanna hafa haldist í hendur við fækkun framkvæmdastjóra og lækkun launa þeirra og forstjóra um 5 prósent.

„Þeim skipulagsbreytingum sem kynntar hafa verið hafa sömuleiðis fylgt sársaukafullar uppsagnir starfsfólks og tilflutningur í starfi. Einnig þurfti að grípa til þess óyndisúrræðis að fella niður hið vel heppnaða Hekluverkefni og vaktaálagsauka hjá hjúkrunarfræðingum enda hefur spítalinn ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa undir greiðslum umfram kjarasamninga.“