Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseti, hefur verið dæmdur í eins árs fangelsi fyrir að fjármagna kosningabaráttu sína ólöglega þegar hann sóttist eftir endurkjöri árið 2012 sem forseti en dómur féll í málinu í dag. Þetta kemur fram í frétt CNN um málið.
Sarkozy hafði ítrekað reynt að koma í veg fyrir að réttarhöldin myndu fara fram en þau hófust engu að síður síðastliðinn maí. Ólíklegt er þó að Sarkozy muni þurfa að afplána dóminn í fangelsi þar sem dómarinn gaf leyfi fyrir því að Sarkozy yrði heima hjá sér þar sem fylgst yrði með honum rafrænt.
Þetta er í annað sinn sem Sarkozy hefur verið dæmdur í fangelsi en síðastliðinn mars var hann dæmdur í þriggja ára fangelsi, þar af tvö skilorðsbundin, fyrir spillingu. Var honum þar gefið að sök að hafa mútað dómara með starfi í skiptum fyrir upplýsingar um sakamálarannsókn á flokki Sarkozy.
Hinn 66 ára gamli Sarkozy hefur áfrýjað þeim dómi en engu að síður er hann eini forseti í nútímasögu Frakklands sem hefur tvívegis verið dæmdur í fangelsi. Hann á einnig yfir höfði sér fleiri ákærur í Frakklandi fyrir að taka við ólöglegum kosningabaráttuframlögum frá Líbýu.
#UPDATE A French court has handed former president Nicolas Sarkozy a one-year sentence for illegal financing of his 2012 re-election bid, dealing a fresh blow to the right-winger six months after a conviction for corruption pic.twitter.com/YbnK7X0XtY
— AFP News Agency (@AFP) September 30, 2021