„Síðustu daga hefur hugur okkar verðir hjá Austfirðingum og sérstaklega Seyðfirðingum, þær náttúruhamfarir sem þar hafa dunið yfir eru gríðarlega miklar og mikið mildi og ótrúleg heppni að enginn skyldi hafa látist eða slasast alvarlega,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, á fundi Almannavarna í dag.

„Ljóst er að sárin á sálinni munu taka tíma að gróa,“ bætti Víðir við en hann mætti aftur til vinnu í dag, eftir Covid-19 veikindi, til að aðstoða við viðbrögð við hamförunum á Seyðisfirði.

„Eftir stendur að öryggistilfinning Seyðfirðinga hefur minnkað og hjá mörgum er öryggisleysið algert.“ Enn sé ekki öruggt fyrir íbúa Seyðisfjarðar að snúa aftur til síns heima. Um 200 Seyðfirðingar hafa enn ekki fengið að vitja húsa sinna vegna skriðuhættu á svæðinu að sögn Víðis.

Alma sendi einnig sínar hlýjustu baráttukveðjur til Seyðfirðinga og Austfirðinga á fundinum. „Það er vissulega erfitt að koma í veg fyrir hópamyndanir og faðmlög þar en við biðjum austfirðinga og aðra að fara eins varlega og hægt er,“ sagði Alma.

Heimsóknir bannaðar

Víðir brýndi fyrir fólki að heimsækja ekki Seyðisfjörð á meðan neyðarstig er enn í gildi og hvatti fólk sem á brýnt erindi til bæjarins til að virða lokunarsvæði. „Þau sem vilja leggja okkur lið geta haft samband við Almannavarnir og boðið upp á aðstoð sína en ekki mætt á staðinn eða annað slíkt.“

Þá benti Víðir á að íbúafundur Seyðfirðinga yrði klukkan 16 í dag. „Fram undan er hreinsun og uppbygging og það er risaverkefni sem skiptir miklu máli fyrir íbúa.“

Mikið tjón hafi orðið á eignum og innviðum og það gæti tekið vikur eða mánuði að reikna út heildartjón í þeim efnum. „Það eru enn ekki öll komin til grafar þar,“ ítrekaði Víðir

Stöndum öll með Seyðisfirði

Í almannavarnalögum kemur fram að hlutverk almannavarna sé að fylgja eftir endurreisn og uppbyggingu eftir áföll á borð við það sem átti sér stað á Seyðisfirði. Víðir segir að byrjað hafi verið að vinna út frá þeim verkferlum um helgina. Þá voru sérfræðingar frá ríkislögreglustjóra sendir á vettvang í dag.

„Við munum öll standa með Seyðfirðingum og fara í gegnum þetta saman og Seyðisfjörður verður aftur öruggur og góður staður til að búa á.“