Sigmundur Ernir Rúnarsson
Laugardagur 16. október 2021
06.00 GMT

Innan við Tíðaskarð liggur marflatur Hvalfjörðurinn og speglar sig makindalega í heiðu himinhvolfinu. Það er þægð í loftinu, enda vegurinn fram undan svo til fáfarinn – og fyrir vikið er náttúran allt um kring miklu áleitnari en forðum daga.

Þegar ekið er yfir Laxá í Kjós og litlu síðar Reynivallahálsinn blasir Hvammsvíkin við, sólarmegin í firðinum – og það er við hæfi að nokkrar álftir hefji sig til flugs þegar blaðamann og ljósmyndara ber að garði.

Erindið er að hitta Skúla Mogensen, staðarhaldara í plássinu og einn umtalaðasta athafnamann Íslands á síðari tímum. En hann er þó hvergi sjáanlegur, finnst ekki í húsaþyrpingunni, hversu mikið sem kallað er, uns hann rekur hausinn út úr einum skálanum með kúst í hendi og kallar til okkar glaður í bragði: „Velkomnir í sveitina, drengir mínir.“

Við horfumst í augu, Skúli og skrifari þessa viðtals – og hann játar án spurningar að svona sé nú komið lífi hans; hann sé kominn niður á jörðina. Sveitin hafi samt bjargað honum og Grímu, konunni hans, á þessum síðustu og verstu tímum:

„Hér höfum við gengið í öll störf, hvort sem það hefur verið að skrúbba klósettin, skipta á rúmum, mála húsin, taka á móti gestum eða skipuleggja viðburði í Hvalfirði,“ segir hann og leggur frá sér kústinn.


„Hér höfum við gengið í öll störf, hvort sem það hefur verið að skrúbba klósettin, skipta á rúmum, mála húsin, taka á móti gestum eða skipuleggja viðburði í Hvalfirði.“


Við röltum af stað eftir landareigninni sem hefur verið heimili hans og skjól frá því flugfélagið féll: „Fyrsta árið eftir gjaldþrotið er allt í móðu,“ rifjar hann upp, „og sem betur fer var ég ekkert að tjá mig þá, enda hefði ég sennilega virkað sem bitur og gamall karl sem lifði á fornri frægð, en það er nú það síðasta sem ég vil.“

Sár?

„Mjög, einkum og sér í lagi út í sjálfan mig. Á endanum má rekja fall WOW til minna mistaka, ekki annarra. Og það máttu vita að enn líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um það sem betur mátti fara.“


Ég gaf mig allan í verkefnið


WOW fór með himinskautum frá stofnun þess fyrir áratug fram til 2018 þegar ofvöxturinn var farinn að sliga það. Þá voru starfsmenn þess 1.500 – og fyrirtækið það fimmta stærsta á landinu – og skilgreint sem þjóðhagslega mikilvægt, enda skilaði það milljónum ferðamanna til landsins og tugum milljarða króna. Ári seinna var því lokað.

„Allan þennan tíma voru engin skil hjá mér á milli vinnu og einkalífs. Ég gaf mig allan í verkefnið. Og þess vegna fannst mér á endanum eins og ég hefði tapað sjálfsmyndinni.“


Hvað sökkstu djúpt?


„Alla leið. Eftir á að hyggja hefði ég átt að leita mér aðstoðar. Reiðin og sorgin tókust heiftarlega á í hausnum á mér. Eftir alla uppbygginguna fannst mér ég vera einskis nýtur.

Mér fannst ég líka hafa brugðist svo mörgum, starfsfélögunum sem höfðu lagt nótt við dag til að byggja upp félagið með mér, öllum fjárfestunum, vinunum, fjölskyldunni og nýrri konu, henni Grímu minni sem ég hafði kynnst þegar allt lék í lyndi, en þegar þunglyndið sótti hvað harðast að mér bauð ég henni að fara frá mér, þetta væri ekki ferðalagið sem ég hafði ætlað henni með mér. Ég var andlega og líkamlega gjaldþrota.“


„Reiðin og sorgin tókust heiftarlega á í hausnum á mér. Eftir alla uppbygginguna fannst mér ég vera einskis nýtur.


En Gríma hristi upp í manni sínum, kom honum í hversdagsverkin í Hvammsvík:

„Hún hefur verið ótrúlega sterk og staðið við hlið mér eins og klettur. Ég er óendanlega þakklátur fyrir hennar stuðning og ást, að ekki sé talað um strákana okkar tvo sem við eigum núna saman, Jaka sem er eins og hálfs árs og mánaðargamlan bróður hans.“

Og talandi um fjölskyldu; hann segir alla stórfamilíuna hafa hjálpað sér svo um munar, ásamt vinum nær og fjær:

„Mamma og pabbi, Anna Skúladóttir og Brynjólfur Mogensen, hafa stutt mig í einu og öllu – og það er fyrir þeirra tilstilli að Hvammsvíkin er enn þá í eigu fjölskyldunnar, en svo má nefna börnin mín þrjú með fyrrverandi eiginkonu, þau Ásgeir, Önnu Sif og Telmu, sem öll eru föðurbetrungar og fullir þátttakendur í fjölskyldufyrirtækinu sem er mér ákaflega dýrmætt. Þá hefur Margrét, mín fyrrverandi, reynst okkur mjög vel í þessari erfiðu vegferð, sem ég er ævinlega þakklátur fyrir, enda langt í frá sjálfgefið.“


„Ég er óendanlega þakklátur fyrir hennar stuðning og ást, að ekki sé talað um strákana okkar tvo sem við eigum núna saman, Jaka sem er eins og hálfs árs og mánaðargamlan bróður hans.“


Skúli og Gríma, ásamt Jaka og litla bróður í móðurkviði sem nú er nýfæddur. Mynd/Saga Sig

Hann þagnar um stund, en segir svo hægum rómi:

„Þessi stuðningur allra minna nánustu kom örugglega í veg fyrir að ég legðist í langvarandi þunglyndi. Ég sé það núna að ég var kominn miklu lengra niður en ég áttaði mig á.“


Ég ætti síðastur manna að væla

Við skottumst upp í gamla ­Falcon Crest á háhólnum í Hvammsvíkinni, þaðan sem bandamenn fylgdust með hundruðum herskipa í fjarðarbotninum. Í byrginu, sem Skúli og Gríma hafa breytt í glæsilega íbúð, eru Churchill og Roosevelt sagðir hafa fundað á laun. Og hér hefurðu svo sjálfur falið þig, spyr blaðamaður í hálfkæringi:

„Já, það má segja það, en í öllu falli dró ég mig bara í hlé.“

Skúli dregur ekkert undan í uppgjöri sínu við sögu WOW: „Ég missti fókusinn. Ég fór að hugsa meira um vöxt Icelandair en það sem WOW gerði best.“ Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann er hversdagslega klæddur og enn er stutt í góðlátlegt brosið, það kunnuglega vörumerki hans frá velgengnisárunum hjá WOW. Augun eru öllu hlutlausari að sjá, enda minningin ströng:

„Ég á svo mörgum það að þakka hvernig ég gat rifið mig aftur í gang, svo sem Valda í Hjólakrafti sem kunnur er fyrir að koma krökkum sem eiga erfitt upp á reiðskjóta og þaðan út í náttúruna. Hann skipaði mér að taka rúntinn með þeim. Og allt í einu sat ég með þessum krökkum í rútu á hringveginum á meðan við skiptumst á að hjóla og deildi með þeim svefnaðstöðu og matarborði, krökkum sem höfðu lent í alls konar mótlæti í æsku – og þarna áttaði ég mig á því að ég ætti síðastur manna að væla.“

Við horfum yfir Hvammsvíkina sem hann hefur ásamt Grímu og foreldrum sínum byggt upp á undanliðnum árum:

„Þetta verkefni kom fyrr upp í hendurnar á mér en ég átti von á,“ segir hann með glott á vör.

„Mér var kippt niður á jörðina, akkúrat þessa hér sem blasir við okkur.“

Og hugmyndafræðin er klár, segir hann ákveðinn og meinar sjálfbæra ferðaþjónustu upp á tíu fingur.

Hér komist menn í náttúrunnar skjól; ferðamaðurinn sem gisti Hvammsvík vakni undir dúnsæng, úr æðarvarpinu í kring, gangi niður að vatni og veiði sér silung í hádegismatinn með heimasprottnum kartöflum og grænmeti, gangi svo saddur á fjöllin í kring, fari á kajak um fjörðinn, eða renni fyrir lax, uns hann njóti sjóbaðanna sem verða opnuð næsta vor, en þar sé 90 gráðu heitu vatni blandað saman við sjó svo úr verður einstök veröld ferskleikans í flæðarmálinu, en í kvöldmat sé svo matur úr héraði, snæddur í gömlu hlöðunni þar sem menningin flæðir milli veggja fram á nótt.


„Mér var kippt niður á jörðina, akkúrat þessa hér sem blasir við okkur.“


„Hér sameinast það alþjóðlega og staðbundna í einum punkti. Og hér sjáum við stóru breytinguna. Fyrir tíu árum var kallað eftir fleiri álverum. Núna er kallað eftir meiri náttúruvernd. Og Ísland skorar þar hæst allra þjóða á norðurslóðum með öllu sínu ósnortna víðerni, hreinu vatni og lofti – og öryggi,“ segir Skúli, minnugur þess hvað ferðamaðurinn vill.

„Hingað mun New York-búinn koma sem aldrei hefur komið við mold eða séð lifandi fisk.“

Hvernig gengur uppbyggingin?

„Furðuvel, enda mikil vinna að baki og jafnframt sú hugsun okkar Grímu að ganga í öll störf. Hún segir að ég sé bestur með skítaburstann í höndum á meðan hún sinni innanhússhönnuninni.“

Til Kanada og aftur heim

Hann segir húmorinn fyrir sjálfum sér hafa hjálpað á síðustu árum, en einnig hitt að nú loksins geti hann horft á WOW og sína gömlu sjálfsmynd úr fjarlægð – og allt það heila ævintýri sem byrjaði eftir að Skúli flutti frá Kanada árið 2008, sterk­efnaður maðurinn að aflokinni sölu á netfyrirtækinu OZ til Nokia fyrir 330 milljónir dala, en örfáum árum áður hafði hann ásamt nokkrum félögum bjargað OZ með naumindum frá þroti þegar netbólan sprakk, á tímum þegar hlutabréf í stórfyrirtækjum á borð við Ericson hrundu um 97 prósent á svipstundu. Viðbragð OZ-verja var að loka öllum skrifstofum OZ utan einnar og fækka starfsmönnum úr 220 í 19.

Skúli segir sveitina hafa bjargað honum og Grímu, konunni hans,: „Hér höfum við gengið í öll störf, hvort sem það hefur verið að skrúbba klósettin, skipta á rúmum, mála húsin, taka á móti gestum eða skipuleggja viðburði. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Þarna kynntist ég því hversu hratt veður geta skipast í lofti, jafnt til hins verra og betra. Það var magnað að sjá hversu hratt við náðum að koma fyrirtækinu í gang á ný, sem sést best á því að starfsmenn þess voru orðnir 200 þegar við seldum það.“

Og hann hugsar sig um:

„Þessi minning og reynsla hefur hjálpað mér mikið við að koma mér í gegnum núverandi lægð, enda sýnir hún hvað hægt er að gera ef allir leggjast á eitt og halda haus.“


Hvers vegna selduð þið OZ?


„Við vissum af hverfulleikanum í netheimum, vorum rækilega minntir á hann þegar allt sprakk fáeinum árum fyrr. Og svo var tilboð Nokia einfaldlega of gott til að trúa því að annað betra kæmi síðar.“

Skúli flutti heim ásamt þáverandi konu sinni og börnum þeirra hjóna þegar Ísland var í félagslegri upplausn, svo fordæmalausri, að ósk þáverandi forsætisráðherra um blessun guðs, þjóðinni til heilla, virtist ekki ætla að rætast.

Í tilviki Skúla tóku við alls konar fjárfestingar í fyrirtækjum og fjármálasjóðum, svo sem MP-banka sem síðar varð Kvika,

„En mér fannst galið á þessum tíma þegar ríkið sat uppi með alla viðskiptabankana þrjá að einkaframtakið hefði ekkert fram að færa á þessu sviði.“


En svo fór þér að leiðast?


„Ójá, ég sat bara í stjórnum og taldi peninga og lét mér leiðast. Ég var ekki hamingjusamur, mig vantaði áskorun.

Ég fann að eðlislæg framtakssemi var farin að dofna og áttaði mig öðru fremur á því að kyrrseta á ekki við mig. Mig þyrsti í að komast aftur í frumkvöðlastólinn og byggja eitthvað upp, en vissi jafnframt að það yrði að vera stórt og krefjandi verkefni svo mér myndi ekki leiðast. Ég fór því að hugsa út fyrir kassann og áttaði mig smám saman á því hver samlegðaráhrifin af hnattstöðu landsins og náttúrugersemum þess eru mikil.“


„Ójá, ég sat bara í stjórnum og taldi peninga og lét mér leiðast. Ég var ekki hamingjusamur, mig vantaði áskorun."


Þetta var þitt WOW?

„Já, akkúrat, augu mín opnuðust.“

Og einkunnarorðin komu til sögunnar?

„Já, heimsyfirráð eða dauði, ekkert minna,“ svarar Skúli og hlær, en segir svo ákveðið að hugsunin hafi strax orðið þessi: „Það sem á að heita ógerlegt er bara skoðun, ekki staðreynd.“


Hreinasta rugl í honum Skúla


Fyrsta flugið – og Skúli lygnir aftur augunum – var til Parísar í maí 2012.

„En það voru allir á því að þetta væri hreinasta rugl í honum Skúla,“ segir hann sposkur á svip:

„Enda töpuðum við meiri peningum á fyrsta sumrinu en við höfðum nokkurn tíma óttast. Svo það var annað hvort að loka eða leggjast á bæn.“

Skúli Mogensen í Falcon Crest, gamla byrgi bandamanna í Hvammsvík sem hann og Gríma hafa breytt í glæsilega íbúð. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Og hvað gerðist?

„Á þessum tíma var ég kominn með nasaþefinn af því sem flugið gæti gert fyrir land og þjóð. Ég lét því slag standa, jók fjárfestingu mína í WOW og tók sjálfur við stjórnartaumunum. Þar með hófst ballið fyrir alvöru,“ segir Skúli og kímir:

„Ég horfði til öflugustu lággjaldaflugfélaganna sem höfðu vaxið og dafnað í kringum okkur og WOW fylgdi þeim eftir með tilheyrandi látum. Þetta kallaði á frumlegar uppákomur í markaðssetningu sem mörgum fannst ekki hæfa flugfélagi, en við notuðum netið og samfélagsmiðla mjög grimmt. Fyrir vikið varð sætanýtingin yfir 90 prósent á svo til öllum okkar flugum þrátt fyrir gríðarlega fjölgun áfangastaða á sama tíma.“

Haustið 2012 tók WOW yfir Iceland Express og fékk fullt flugrekstrarleyfi um líkt leyti „á mettíma“, eins og Skúli orðar það með ljóma í augum.

Og svo hófst Ameríkuflugið vorið 2015 með nýjum Airbus-vélum sem markaði stærstu kaflaskilin, en við það snarbatnaði reksturinn með vaxandi flugflota og fleiri áfangastöðum:

„Það spáðu margir því að Ameríkuflugið færi með flugfélagið, en staðreyndin er sú að árið 2015 skilaði það hálfs annars milljarða hagnaði og ári seinna var gróðinn fjórir milljarðar. Þar með var búið að greiða fyrir alla uppbygginguna og gott betur, nokkuð sem engan óraði fyrir.“


„Það spáðu margir því að Ameríkuflugið færi með flugfélagið, en staðreyndin er sú að árið 2015 skilaði það hálfs annars milljarða hagnaði og ári seinna var gróðinn fjórir milljarðar."


Allir þekkja velgengni WOW, Skúli, en hvað klikkaði?


„Við hættum að vera lággjaldaflugfélag. Það er misskilningur að fyrirtæki á þessu sviði verði lággjaldaflugfélög við það eitt að bjóða lág fargjöld.

Það verður líka að hafa lágan rekstrarkostnað og litla yfirbyggingu. Eina leiðin til þess er að hafa einsleitan flota, yfir 90 prósenta sætanýtingu, fljúga vélunum 400 tíma á mánuði, selja allt í gegnum netið og hafa einfaldleikann að leiðarljósi. Því miður misstum við sjónar á þessu.“


Hvernig þá?


„Með því að bæta breiðþotum við flotann, bjóða betri sæti og fjölga áfangastöðum um of. Ég fór að máta félagið við sjálfan mig, frægðina, uppganginn og arðinn frekar en að vera trúr upphaflegu lággjaldastefnunni eins og Ryanair og Wizzair hafa gert alla tíð. Raunar með svo góðum árangri að hvorugt þurfti ríkisaðstoð á tímum farsóttar.

Ég missti fókusinn. Ég fór að hugsa meira um vöxt Icelandair en það sem WOW gerði best.“


„Ég fór að máta félagið við sjálfan mig, frægðina, uppganginn og arðinn frekar en að vera trúr upphaflegu lággjaldastefnunni eins og Ryanair og Wizzair hafa gert alla tíð.


Ráðlagt að fara í gjaldþrot


Á útmánuðum 2019 reyndi Skúli og aðrir stjórnendur WOW að rifa seglin með því að skila breiðþotunum og viðsnúningurinn varð strax nokkur:

„Reksturinn batnaði hratt þrátt fyrir óvægna umfjöllun og ég varð sannfærðari um það með hækkandi sól að svona stórt félag með 80 milljarða veltu kæmist fyrir vind. En umfangið reyndist of mikið og tíminn of knappur á þeim hluta ársins þegar eftirspurnin er minnst.“

Skúli tapaði öllu sínu, sjálfsmyndinni og sjóðunum. Honum var ráðlagt að fara í persónulegt gjaldþrot en þráaðist við.

Með falli WOW, einu og sér, tapaði hann fjórum milljörðum, en þess utan skuldaði Skúli og félög hans annað eins sem hann er að greiða niður með sölu fasteigna, jarða, verðbréfa og listaverka.

„Og sú vinna er í fullum gangi,“ viðurkennir hann fúslega og metur það svo að með aðstoð fjölskyldu og vina klári hann sín mál. „Þetta virtist að vísu vonlaust í farsóttinni, enda var landinu lokað, en nú er allt breytt, markaðir og fasteignir í methæðum og það hefur hjálpað mér mikið í þessu uppgjöri.“

Fuglinn Fönix flaug of hátt eins og fleiri á myndinni. Verkið Fönix sem stendur á landareign Skúla er frá árinu 1960 og eftir Ásmund Sveinsson. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Myndirðu gera þetta allt aftur?

„Tvímælalaust.“


Ertu viss?


„Algjörlega. WOW er ævintýri lífs míns og ég hefði ekki viljað missa af einum degi í allri þeirri rússibanareið sem rekstur félagsins var.

Þarna var samankominn ótrúlegur hópur fólks sem bjó til einstaka stemningu og liðsheild sem vann kraftaverk á hverjum degi. Ég sakna þess gríðarlega að hafa ekki fengið tækifæri til að klára það mikla starf sem WOW-liðið var búið að byggja upp og var einstakt á heimsvísu. Við vorum ein stór fjölskylda.“

Gríma er miklu meiri töffari en ég

Hann segir flugið vera einstaka atvinnugrein og að hennar bíði stórkostlegar áskoranir:

„Það verða straumhvörf á næstu árum þegar rafmagnsflugvélar verða að veruleika. Þær verða ekki aðeins umhverfisvænni, hljóðlátari og langdrægari heldur mun rekstrarkostnaður flugfélaga lækka um allt að 30 prósent á svipstundu.

Og staðan verður þá þessi; Ísland verður orkustöð fyrir allt flug á milli Evrópu, Ameríku og Asíu þar sem hagkvæmi og hreini rafáfyllingarstaðurinn í Keflavík verður í lykilhlutverki,“ segir Skúli, dreyminn á svip.


Þú ert aftur kominn á flug?


„Auðvitað. Og við þetta mun draumur minn rætast um að gera öllum kleift að ferðast. Flugmiðinn sjálfur verður allt að því ókeypis. Flugfélögin munu þurfa að standa sig miklu betur í þjónustu og bjóða farþegum meiri og betri upplifun, bæði fyrir og eftir flug. Þar með verða hliðartekjur flugfélaganna aðalatriði og flugfélög fara aftur að bjóða upp á upplifun í staðinn fyrir að vera bara í gripaflutningum.“


„Og við þetta mun draumur minn rætast um að gera öllum kleift að ferðast. Flugmiðinn sjálfur verður allt að því ókeypis."


Ég hélt þú værir lentur hérna í Hvammsvíkinni?


„Veistu, ég vona að mig hætti aldrei að dreyma og hugsa stórt hérna í sveitinni, en vel að merkja, í Hvalfirðinum hef ég líka lært að leita ekki langt yfir skammt og finna það sem skiptir mig mestu máli í lífinu.

Við Gríma erum rétt að byrja okkar ævintýri. Hún hefur mátt þola umtalið, allt frá því við byrjuðum saman sem auðvitað vakti athygli vegna 20 ára aldursmunar. Og vel að merkja, hún var alltof ung í huga mér í fyrstu, enda féll ég ekki fyrir henni fyrr en mörgum árum eftir fyrstu kynni þegar hún hafði sem flugfreyja hjá WOW elt drauma sína út fyrir landsteinana og lagt stund á nám í innanhússhönnun. Og henni er ekki fisjað saman,“ segir Skúli og nú nær brosið til augnanna.


„Við Gríma erum rétt að byrja okkar ævintýri. Hún hefur mátt þola umtalið, allt frá því við byrjuðum saman sem auðvitað vakti athygli vegna 20 ára aldursmunar."


„Einu sinni fældi hundur hér í Hvammsvíkinni fjárhóp úr Brynjudalnum svo ég varð að hendast á fjórhjóli upp um allar hlíðar til að bjarga hjörðinni. Þegar ég kom til baka fann ég Grímu hvergi, fyrr en ég sá hana ganga á land niðri í vík, kviknakta, eftir að hafa synt eina 50 metra á haf út til að bjarga þar einni kindinni á land. Gríma er miklu meiri töffari en ég.“

Og talandi um Grímu. Hún hringir undir lok samtalsins. Jaki er kominn með smávægilega pest. Skúli eigi að aka í bæinn eftir lyfjum. Helst sem fyrst. En einmitt þannig er lífið.

Athugasemdir