Ein­staklingar sem smitast hafa af CO­VID-19 og eru ekki með mót­efni þurfa ekki að vera ótta­slegnari en þeir sem eru með mót­efni. Þetta segir Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, í við­tali viðRÚV í kvöld.

Rann­sóknir hér á landi benda til þess að um níu prósent þeirra sem fengið hafa CO­VID-19 myndi lítið eða ekkert mót­efni gegn veirunni. Fjögur prósent virðast ekki mynda nein mót­efni.

Vísað er í við­tal í kvöld­fréttum RÚV í gær við 25 ára konu sem veiktist illa af CO­VID-19 og er í hópi þeirra sem ekki hafa myndað mót­efni. Sagðist konan óttast að veikjast aftur af veirunni af þeim sökum.

Kári segir aftur á móti hverfandi líkur á að fólk geti veikst oftar en einu sinni af CO­VID-19. Segist hann ekki vita um nein dæmi í heiminum nú þegar um sex milljónir manna hafa veikst af veirunni og þrjár til fjórar milljónir læknast.

„En enginn þeirra hefur sýkst aftur. Þannig að ég held líkurnar séu mjög litlar á því að þessi fjögur prósent sýkist aftur,“ segir Kári.

Þetta rímar við það sem Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir sagði á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag. Þó að ein­staklingar mælist ekki með mót­efni gegn veirunni geti þeir verið svo­kallað frumu­bundið ó­næmi sem mælist ekki í mót­efna­mælingu.