„Það er erfitt að lýsa því hvernig mér líður núna öðru­vísi en að mér sé létt að það skuli hafa verið rétt að taka slaginn og vekja at­hygli á málinu opin­ber­lega,“ segir Sarah Wagstaff sem síðast­liðinn föstu­dag voru dæmdar bætur vegna and­láts föður hennar í flug­slysi á Ís­landi.

Héraðs­dómur Reykja­víkur telur Arn­grím Jóhanns­son flug­stjóra hafa sýnt stór­fellt gá­leysi í að­draganda þess að hann nauð­lenti flug­vél sinni í Bark­ár­dal 9. ágúst 2015 og Kanada­maðurinn Arthur Grant Wagstaff fórst. Þrjú Börn Grants kröfðust hvert um sig tólf milljóna króna í bætur en voru dæmdar tvær milljónir. Ekkjunni Ros­lyn voru dæmdar 3,4 milljónir en 35 milljóna króna kröfu hennar vegna missis fram­færanda var vísað frá.

„Ég er svo á­nægð með að dómurinn tók undir með fjöl­skyldu minni og komst að þeirri niður­stöðu að and­lát föður míns hefði vissu­lega borið að vegna van­rækslu af hálfu Arn­gríms,“ segir Sarah. Hún sé á­nægð með að hafa vakið at­hygli á málinu. „Sér­stak­lega á þætti Sjó­vár sem reyndi að komast hjá greiðslu undir því yfir­skini að faðir minn hefði haft þá stöðu um borð að vera flug­maður sem ekki var að fljúga.“

Sarah vonast til að bar­átta fjöl­skyldunnar gagnist fleirum. „Til­finningin er að við höfum unnið ötul­lega að því að setja betri við­mið um vernd annarra flug­manna og far­þega. Vonandi verður það já­kvæð arf­leifð fyrir nafn föður míns.“

Sarah Wagstaff.
Mynd/Aðsend

Þótt Sarah segist sátt við rök­stuðning og niður­stöðu dómaranna séu það mikil von­brigði að bæturnar séu miklu lægri en það sem þau óskuðu eftir. „Sér­stak­lega í ljósi þessa langa tíma og erfið­leika sem fjöl­skylda mín hefur mátt þola í lang­dregnu ferli,“ segir hún en Sarah hefur áður lýst ýmsum vand­kvæðum við rekstur málsins.

Sarah segir að bæturnar hjálpi til við að greiða náms­kostnað hennar og syst­kina hennar. „Og vonandi munum við geta komið til Ís­lands á næsta ári, heim­sótt slysstaðinn og farið með kveðju­bæn fyrir pabba minn,“ segir hún.

Héraðs­dómur Reykja­víkur telur Arn­grím Jóhanns­son flug­stjóra hafa sýnt stór­fellt gá­leysi í að­draganda þess að hann nauð­lenti flug­vél sinni í Bark­ár­dal 9. ágúst 2015 og Kanada­maðurinn Arthur Grant Wagstaff fórst.
Mynd/Aðsend

Í dóminum segir að Arn­grímur hafi sýnt af sér stór­fellt gá­leysi með því að halda á­fram að fljúga inn Bark­ár­dal þrátt fyrir gang­truflanir í stað þess að snúa við þegar þeirra hafi orðið vart. Sjálfur sagði Arn­grímur að þeir Grant, sem einnig var flug­maður, hafi tekið á­kvarðanir um flugið sam­eigin­lega.

„Það að tveir þraut­reyndir flug­menn ræði saman um fram­kvæmd flugs í að­draganda þess og á meðan á fluginu stendur gerir þann sem er ekki við stjórn­völinn ekki að flug­manni í við­komandi flug­ferð. Það að hann leysi ein­hver til­tekin verk­efni af hendi fyrir flugið eða á meðan á því stendur gerir hann ekki heldur að flug­manni,“ segir í dóminum. Er því hafnað að flokka beri Grant „sem ein­hvers konar ó­tryggðan auka­flug­mann“. Sjó­vá og Arn­grímur séu bóta­skyld gagn­vart fjöl­skyldu Kanada­mannsins.