„Það er erfitt að lýsa því hvernig mér líður núna öðruvísi en að mér sé létt að það skuli hafa verið rétt að taka slaginn og vekja athygli á málinu opinberlega,“ segir Sarah Wagstaff sem síðastliðinn föstudag voru dæmdar bætur vegna andláts föður hennar í flugslysi á Íslandi.
Héraðsdómur Reykjavíkur telur Arngrím Jóhannsson flugstjóra hafa sýnt stórfellt gáleysi í aðdraganda þess að hann nauðlenti flugvél sinni í Barkárdal 9. ágúst 2015 og Kanadamaðurinn Arthur Grant Wagstaff fórst. Þrjú Börn Grants kröfðust hvert um sig tólf milljóna króna í bætur en voru dæmdar tvær milljónir. Ekkjunni Roslyn voru dæmdar 3,4 milljónir en 35 milljóna króna kröfu hennar vegna missis framfæranda var vísað frá.
„Ég er svo ánægð með að dómurinn tók undir með fjölskyldu minni og komst að þeirri niðurstöðu að andlát föður míns hefði vissulega borið að vegna vanrækslu af hálfu Arngríms,“ segir Sarah. Hún sé ánægð með að hafa vakið athygli á málinu. „Sérstaklega á þætti Sjóvár sem reyndi að komast hjá greiðslu undir því yfirskini að faðir minn hefði haft þá stöðu um borð að vera flugmaður sem ekki var að fljúga.“
Sarah vonast til að barátta fjölskyldunnar gagnist fleirum. „Tilfinningin er að við höfum unnið ötullega að því að setja betri viðmið um vernd annarra flugmanna og farþega. Vonandi verður það jákvæð arfleifð fyrir nafn föður míns.“

Þótt Sarah segist sátt við rökstuðning og niðurstöðu dómaranna séu það mikil vonbrigði að bæturnar séu miklu lægri en það sem þau óskuðu eftir. „Sérstaklega í ljósi þessa langa tíma og erfiðleika sem fjölskylda mín hefur mátt þola í langdregnu ferli,“ segir hún en Sarah hefur áður lýst ýmsum vandkvæðum við rekstur málsins.
Sarah segir að bæturnar hjálpi til við að greiða námskostnað hennar og systkina hennar. „Og vonandi munum við geta komið til Íslands á næsta ári, heimsótt slysstaðinn og farið með kveðjubæn fyrir pabba minn,“ segir hún.

Í dóminum segir að Arngrímur hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að halda áfram að fljúga inn Barkárdal þrátt fyrir gangtruflanir í stað þess að snúa við þegar þeirra hafi orðið vart. Sjálfur sagði Arngrímur að þeir Grant, sem einnig var flugmaður, hafi tekið ákvarðanir um flugið sameiginlega.
„Það að tveir þrautreyndir flugmenn ræði saman um framkvæmd flugs í aðdraganda þess og á meðan á fluginu stendur gerir þann sem er ekki við stjórnvölinn ekki að flugmanni í viðkomandi flugferð. Það að hann leysi einhver tiltekin verkefni af hendi fyrir flugið eða á meðan á því stendur gerir hann ekki heldur að flugmanni,“ segir í dóminum. Er því hafnað að flokka beri Grant „sem einhvers konar ótryggðan aukaflugmann“. Sjóvá og Arngrímur séu bótaskyld gagnvart fjölskyldu Kanadamannsins.