Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaefni Repúblikana, sást snæða utandyra á veitingastað á Manhattan í New York í gærkvöldi, aðeins tveimur dögum eftir að greint var frá því að hún hefði greinst með Covid-19.

New York Post greinir frá.

Þetta er í annað sinn sem Palin greinist með kórónaveiruna en hún lýsti því yfir fyrir nokkru að hún myndi aldrei fá bóluefni gegn Covid. „Fyrr skal ég dauð liggja,“ sagði hún.

Heimsókn hennar á veitingastaðinn er ekki í samræmi við leiðbeiningar um sóttkví.

Meiðyrðamáli Palin gegn New York Times var frestað á mánudag vegna smits Palin eftir að hún greindist jákvæð.

Palin leitar réttar síns gegn Times vegna umfjöllunar frá árinu 2017 um að mynd frá pólitískri aðgerðanefnd Palin hafi kynt undir undir skotárásina á bandarísku þingkonuna Gabrielle Giffords.