Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson bendir á sannkallaða mánudagslægð á morgun. „Gott skólabókardæmi um lægð sem myndast suður af Nýfundnalandi og stefnir rakleiðis í áttina að okkur,“ segir Einar í færslu á Facebook-síðu sinni um veðrið á morgun.

Einar segir óvissuna með dýpt lægðarinnar sem á leið inn til landsins mesta höfuðverkinn en að veðrið bresti á í eftirmiðdaginn á morgun. Það sé þó spurning hversu hvasst verði og í hvaða hæð fjallveganna slydda verði að snjó.

Ört dýpkandi lægð nálgast

Á vef Veðurstofu Íslands má sjá að í dag snýst smám saman í norðan kalda eða stinningskalda. Víða él en styttir upp sunnanlands eftir hádegi. Hiti verður á bilinu um eða undir frostmarki.

Í kvöld mun svo draga bæði úr vindi og éljum og þá kólnar í veðri.

Í fyrramálið verður tiltölulega rólegt veður víðast hvar. En ört dýpkandi lægð nálgast landið úr suðvestri og veldur hún vaxandi austanátt, 18 til 25 metrum á sekúndu síðdegis með snjókomu eða él.

Syðst á landinu má búast við að enn hvassara verði fram á kvöld með talsverðri ofankomu.

Á Norðaustur- og Austurlandi verður vindur hins vegar mun hægari, yfirleitt kaldi eða strekkingur. Síðdegis á morgun og annað kvöld er því útlit fyrir afar slæmt ferðaveður um landið sunnan- og vestanvert, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Frost verður 0 til 12 stig, kaldast norðaustantil, en þó gæti hlánað syðst á landinu um tíma annað kvöld.

Gular og appelsínugular viðvaranir

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular og appelsínugular viðvaranir vegna veðurs á morgun og þriðjudag.

Appelsínugul viðviðvörun verður á Suðurlandi, Faxaflóa, Vestfjörðum og Suðausturlandi.

Gul viðvörun verður á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Suðausturlandi og Miðhálendi.

Fólk er hvatt til að kynna sér veður vel áður en lagt er af stað í ferðalag. Akstursskilyrði geta orðið erfið og færð getur spillst.