Þing verður sett við hátíðlega athöfn í dag og kjörbréfanefnd formlega kjörin. Þá verða niðurstöður hennar lagðar fram síðdegis og svo verður þingfundi frestað til fimmtudags.

Fundir verða í flestum þingflokkum á miðvikudag og verður gengið til atkvæða í þinginu um tillögur kjörbréfanefndar á fimmtudag. Alls ekki er gefið að þingmenn muni greiða atkvæði um þær eftir flokkslínum.

„Það kæmi mér ekki á óvart að það yrðu ekki flokkslínur í atkvæðagreiðslunni,“ segir Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Hann segir sinn þingflokk ekki hafa rætt efnislega afstöðu þingmanna í málinu, en að fulltrúi flokksins í undirbúningsnefndinni hafi haldið þingflokknum upplýstum um störf nefndarinnar.

Þingflokkurinn muni funda á morgun, eftir að fólk hafi getað kynnt sér niðurstöður kjörbréfanefndar. „Það kæmi mér ekki á óvart ef við færðumst eitthvað nær kjarnanum í þessu á þeim fundi.“

„Við höfum ákveðið að það verður engin pressa af hálfu þingflokksformanns eða formanns um sameiginlega stefnu í þessu máli heldur teljum við að þetta mál sé þess eðlis að það sé eðlilegra og réttara að hver þingmaður, að fengnum upplýsingum sem fyrir liggja, taki afstöðu út frá eigin sannfæringu,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.

Þingflokkur hennar fundar bæði í dag og á morgun. „Menn munu væntanlega gefa upp ákvörðun sína þá ef hún á annað borð liggur fyrir,“ segir hún.

Aðspurð segir hún ekki ólíklegt að einhverjir þingmanna flokksins muni sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. „Við erum náttúrulega með tvo uppbótarþingmenn í hópnum, þar af einn sem er á þessari hringekju.“

Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir enga eina línu vera komna í sínum þingflokki. „Mér finnst eðlilegt að hver og einn fái að kjósa eftir sinni sannfæringu,“ segir hún og bætir við: „Við erum auðvitað í þessari sérstöku stöðu að vera með tvo einstaklinga hjá okkur sem eru í þessari rúllettu. Við verðum að horfa fram hjá persónum og leikendum þar fyrst og fremst umfram allt.“

Aðspurð segist hún ekki vita hvort einhverjir muni sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Viðmælendur blaðsins í þinginu eru allir sammála um hve óvenjulegt viðfangsefni málið sé fyrir þingmenn.

Magnús Davíð Nordal, oddviti og frambjóðandi Pírata í NV lagði fram kæru til Alþingis vegna kosninganna. Willum Þór Þórsson tók á móti henni

„Þetta er með allra erfiðustu málum sem maður hefur fengist við,“ segir Willum. Nú bíði þingmenn eftir lokaniðurstöðum en flestir hafi þó kynnt sér málavaxtalýsingu nefndarinnar úr Norðvesturkjördæmi.

„Það er mjög sérstakt að lesa hana í gegn og margt sem fer í gegnum hugann. Maður er ekki að lesa svona gögn á hverjum degi.“ Willum tekur dæmi um tímasetningar á umferð fólks inn og út af talningarstað. „Og þá fer hugurinn af stað, til dæmis hvort einhver hafi mögulega getað komist inn og átt við gögnin.“

Willum hefur gegnt starfi þingforseta frá kosningum. Spurður um atkvæðagreiðsluna sérstaklega segir hann stefnt að því að þingflokksformenn hittist á fundi með forseta á miðvikudag til að ræða framkvæmdina. Mikilvægt sé að sem best samstaða verði um hana.

Þeim fundi mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hins vegar stýra en þingskapalög gera ráð fyrir að sá þingmaður sem lengstan starfsaldur hefur sitji í forsæti þingsins þar til nýr forseti hefur verið kjörinn.