Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, gagnrýnir Reykjavíkurborg harðlega fyrir nýtt, gríðarstjórt listaverk sem afhjúpað var á Lækjartorgi um helgina. 

Verkið er af hinum víðfræga jólaketti og var afhjúpað á laugardaginn við mikla viðhöfn. 

Í færslu, sem Sanna birti á Facebook-hópi Sósíalistaflokksins fyrir stuttu, gagnrýnir hún borgina fyrir að hampa kettinum, þegar borgin er „sennilega stærsti láglaunavinnustaður landsins og greiðir mörgum laun sem duga ekki fyrir helstu nauðsynjum út mánuðinn.“

Þá segir Sanna það á ábyrgð borgarinnar að mörg börn alist upp við fátækt.
„Borgin ákveður samt sem áður að hampa jólakettinum opinberlega án þess að minnast á fátækt. Fátækt er ógnvekjandi óvættur sem margir þurfa að eiga við alla mánuði ársins, ekki bara í desember,“ ritar Sanna. 

Líkt og flestum landsmönnum er eflaust kunnugt um er jólakötturinn þekktur fyrir að leggja sér börn til munns, sem ekki hafa fengið nýjar flíkur fyrir jólinn. Vísir greindi frá því í morgun að uppsetning kattarins hafi kostað borgina 4.4 milljónir króna.

„Ef að Reykjavíkurborg er með þessu á einhvern hátt að leitast við að draga fátækt fram í dagsljósið þá ætti hún frekar að bjóða t.d. fólki frá Pepp (samtökum fólks í fátækt) að koma og segja frá sinni reynslu, í staðinn fyrir að haldi í heiðri viðhorfum um að það beri að refsa fátæku fólki fyrir að vera á þeim stað sem það er. Ég er allavegana ekki að ná því hvað er svona flissandi skemmtilegt við það að kveikja á jólakettinum, væri frekar til í að kveikja í nýfrjálshyggjunni.“