Sanna Marin tjáði sig í dag um þau mál sem steðjað hafa að henni síðustu daga í tilfinningaþrunginni ræðu sem hún flutti á fjölmiðlafundi.
Þetta kemur fram á fréttavef NYPost en í ræðunni talaði hún meðal annars um eigið vinnuframlag og rétt hennar til einkalífs. Hún sagði að síðustu dagar hefðu verið henni virkilega erfiðir en hún hefur legið undir mikilli gagnrýni vegna myndbandsbirtinga af henni að skemmta sér ásamt öðrum þekktum einstaklingum úr finnsku samfélagi.
„Ég er mennsk“ sagði Sanna Marin meðal annars við fjölmiðla og tjáði sig einnig um þá gagnrýni sem hún hefur fengið síðustu daga „Þetta hefur verið erfitt. En ég trúi því að fólk muni horfa á þá vinnu sem við höfum unnið en ekki aðeins það sem við gerum í frítíma okkar,“ sagði Sanna Marin.
Sanna Marin samþykkti í kjölfar myndbandanna að gangast undir eiturlyfjapróf sem á endanum reyndist neikvætt.
Sanna Marin hefur þó beðist afsökunar á annarri myndbirtingu sem sýndi tvær þekktar samfélagsmiðlastjörnur í Finnlandi, berar að ofan að kyssast, í forsætisráðherrabústaðnum í Helsinki.
„Að mínu mati var ljósmyndin ekki við hæfi og ég biðst afsökunar á henni,“ sagði Sanna Marin.