Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, mun koma til Íslands á þriðjudaginn 22. nóvember næstkomandi. Hún mun meðal annars funda með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands.
Í tilkynningu á Stjórnarráðinu kemur fram að Sanna Marin sé væntanleg í vinnuheimsókn. Katrín mun taka á móti henni í Norræna húsinu kl. 11 næstkomandi þriðjudag, þar sem forsætisráðherrarnir munu eiga tvíhliða fund.
Þær munu síðan halda í Þjóðminjasafnið þar sem þær munu eiga hádegisspjall um áskoranir og tækifæri samtímans. Heimir Már Pétursson stýrir umræðum en viðburðurinn er á vegum forsætisráðuneytisins og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.
Sanna Marin hefur gengt embætti forsætisráðherra Finnlands síðan árið 2019. Hún er 37 ára og er leiðtogi Jafnaðarmannaflokks Finnlands.
Sanna Marin komst í heimsfréttir fyrr á árinu en þá fóru myndbönd af dreifingu þar sem mátti sjá forsætisráðherrann dansa og drekka með vinum sínum í lokuðu samkvæmi. Sanna Marin var sökuð um að sýna óábyrgð í starfi sínu sem forsætisráðherra.
Á samfélagsmiðlum voru margir sem sýndu Sönnu Marin stuðning sinn með því að dansa undir myllumerkinu #SolidarityWithSanna.
Opinber rannsókn í Finnlandi leiddi síðar í ljós að Sanna Marin braut engar reglur í myndböndunum.
