Vinnufundur Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands hófst í dag í Norræna húsinu þar sem Katrín tók vel á móti henni.

Þær ræddu síðar meira saman í Þjóðminjasafninu þar sem boðið var til opinnar málstofu. Tilgangur heimsóknar Sönnu er meðal annars að ræða aðildarumsókn Finna að Atlantshafsbandalaginu og öryggismál í Evrópu.

Á fundinum ræddu Katrín og Sanna um margvísleg umræðuefni og samstarfsmöguleika landanna í framtíðinni.

Sem möguleg samstarfsverkefni nefndu þær sérstaklega stöðu geðheilbrigðismála hjá ungu fólki og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi. Þá sagði Katrín einnig að þær sæju fyrir sér að löndin gætu unnið saman gegn einelti og ofbeldi á internetinu.

Á alþjóðasviðinu ræddu þær meðal annars um hve mikilvægt það væri fyrir Evrópu að losna úr þeirri stöðu að vera háð stórveldum og einræðisríkjum um nauðsynjar eins og orku, matvæli eða annað. Þetta komi hvað best fram í þeirri orkukrísu sem nú geisar í Evrópu eftir að Rússland hefur lokaði fyrir sölu á orku til Evrópu.

Annað sem Sanna Marin minntist á var að veruleiki Finna hafi kollvarpast við innrás Rússlands í Úkraínu. Þetta endurspeglist í þeirri staðreynd að fyrir það hafi aðeins um 20 prósent þjóðarinnar viljað hefja aðildarviðræður við Atlantshafsbandalagið en eftir það hafi 80 prósent verið á þeirri skoðun.

Katrín og Sanna féllust í faðma fyrir utan Norræna húsið í dag.
Fréttablaðið/AntonBrink

Úkraína verði að vinna stríðið

Sanna Marin sagði að lykilatriði fyrir framtíð Evrópu væri að Úkraína myndi bera sigur af hólmi í stríði sínu gegn Rússlandi. Ef Úkraína myndi tapa myndi það einungis leiða til meira stríðs. Rússland myndi þá halda landvinningum sínum áfram og ráðast á aðrar nálægar þjóðir í framtíðinni. „Ef Rússar vinna þetta stríð, þá munum við sjá fleiri stríð í framhaldinu,“ sagði Sanna Marin.

Umsókn Finna og Svía gangi vel

Varðandi það hvort það hafi komið henni á óvart að umsóknir Svía og Finna um aðild að Atlantshafsbandalaginu hafi tekið langan tíma sagði Sanna Marin að henni fyndist það ekki raunin:

„28 lönd hafa nú þegar staðfest umsókn okkar. Þau gerðu það mjög hratt og við erum að sjálfsögðu mjög þakklát fyrir það,“ sagði Sanna Marin en Ungverjaland og Tyrkland eru einu þjóðirnar sem eiga eftir að staðfesta umsókn þeirra.

„Auðvitað viljum við að Ungverjaland og Tyrkland staðfesti umsókn okkar eins fljótt og hægt er. Ég held að það sé nauðsynlegt, einnig út frá sjónarmiðum Atlantshafsbandalagsins sjálfs,“ sagði Sanna Marin en hún undirstrikaði þó að innganga Finna í NATO væri í nafni friðar. Það væri ekki gert af neinni annarri ástæðu en að tryggja öryggi landa sinna.

Sanna Marin hefur sagt að innganga Svía og Finna í NATO sé nauðsynleg til að tryggja áframhaldandi öryggi þjóðanna.
Fréttablaðið/AntonBrink

Rússar segja engan grundvöll fyrir aðild

Rússland hefur áður gefið út að þeir hafi ekki neitt á móti því að Svíþjóð og Finnland gangi í NATO en Pútín hefur þó sagt að ef settar verði um herstöðvar eða aðrir hernaðarlegir innviðir á vegum NATO í Finnlandi eða Svíþjóð verði því svarað. Aðspurð um það hvort Rússland hafi tjáð sig við Finnland varðandi umsókn þeirra sagði Sanna Marin að Rússar telji að enginn grundvöllur væri fyrir umsókn Svíþjóðar og Finnlands í bandalagið.

„En að sjálfsögðu sjáum við hlutina ekki þannig. Við viljum tryggja að þegnar okkar séu öruggir bæði núna og í framtíðinni. Ef það væri ekki fyrir þetta stríð í Úkraínu væru engar aðildarviðræður. En þar sem Rússland réðst á Úkraínu á svona miskunnarlausan hátt þá verðum við að tryggja að okkar samfélag sé öruggt í framtíðinni. Að það verði til landamæri á milli Rússa og Finna sem Rússland myndi ekki voga sér að ráðast yfir,“ sagði Sanna Marin en hún þakkaði einnig Íslandi fyrir skjót viðbrögð sín í því að samþykkja umsókn Finnlands.

Var sjálf í kastljósinu

Sanna Marin sjálf var mikið til umræðu fyrir ekki svo löngu þegar myndbönd af þátttöku hennar í veisluhöldum voru til umræðu. Aðspurð um það hvort málið hafi haft afleiðingar á pólitískan frama hennar sagðist hún frekar einbeita sér að þeim málefnum sem skiptu Finnland máli.

„Ég er að einbeita mér að málefnunum og þeim hættum sem steðja að landinu. Í minni stjórnartíð höfum við staðið frammi fyrir stórum samfélagslegum vandamálum. Fyrst faraldrinum, og svo stríðinu sem nú geisar í Evrópu og nú stöndum við frammi fyrir orku og efnahags krísu,“ sagði Sanna Marin.

„Ég er að einbeita mér að þessum málum ásamt stjórnaraðilum mínum til þess að gera líf fólksins í landinu betra á þessum erfiðu tímum,“ sagði hún.

Hittust sem leiðtogar

Aðspurð um það hvort skoðun Vinstri grænna á NATO hafi haft einhver áhrif á viðræður hennar og Katrínar sagði hún svo ekki vera.

„Ég hef rætt við Katrínu sem forsætisráðherra til forsætisráðherra og við höfum átt góð samskipti og í raun mjög einlæg. Það er mjög auðvelt að ræða við aðrar Norðurlandaþjóðir þau margvíslegu málefni sem við deilum eins og jafnrétti og mannréttindi,“ sagði Sanna Marin.

„Við erum ekki að ræða saman sem fulltrúar okkar flokka heldur sem þjóðarleiðtogar.“