Kjósendur í Kaliforníu samþykktu nú á dögunum ný lög um velferð húsdýra en lögin kveða meðal annars á um að öll dýr, svo sem eins og hænur, kýr og svín fái nægt rými svo þau geti snúið sér við, teygt úr sér og legið með þægilegum hætti í hýbýlum sínum. Um er að ræða framsæknustu lög í heimi um velferð húsdýra ef marka má umfjöllun Guardian.

Um var að ræða svokallaða lagatillögu númer 12, en hún var samþykkt með 61 prósenta atkvæði kjósenda í ríkinu. Í lögunum er kveðið á um að bændur og matvælaframleiðendur missi tilskilin leyfi fari þeir ekki eftir lögunum og veiti dýrunum nægt rými. Þá verður heldur ekki leyfð sala á afurðum frá framleiðendum sem brjóta gegn umræddum lögum jafnvel þó þeir séu staðsettir utan Kaliforníu.

Samþykkt lagana var fagnað af dýraverndunarsamtökum í Kaliforníu sem sögðu að kjósendur ríkisins hefðu hafnað „grimmilegri vist dýra í litlum búrum.“ Matvælaframleiðendur mótmæltu hinsvegar lögunum á þeim forsendum að þetta myndi neyða framleiðendur til þess að hækka verð sín og hækka framleiðslukostnað.

Lögin munu taka gildi árið 2020 og verða afurðir einungis seldar frá býlum þar sem nautgripirnir hafa 43 fermetra og hænur og aðrir fuglar að minnsta kosti einn fermeter. Tveimur árum síðan munu lögin svo ná til svínakjöts en þá verður framleiðendur skyldugir til þess að gefa svínum að minnsta kosti 24 fermetra rými og þá verður einungis leyfilegt að selja egg frá lausagönguhænum.