Þingmenn neðri deildar breska þingsins samþykktu rétt í þessu að fresta útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu um óákveðinn tíma. Þetta er þó háð samþykki Evrópusambandsins, svo Bretar gætu enn gengið úr sambandinu 29. mars næst komandi. 

412 þingmenn kusu með tillögunni um frest en 202 gegn henni. Ef að Evrópusambandið samþykkir ráðahaginn verður útgöngu Breta úr ESB frestað. 

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að fresturinn geti verið allt að að þrír mánuðir, eða til 30. júní næstkomandi, ef að útgöngusamningur, sem kosið verður um í næstu viku, verður samþykktur. 

Ef að útgöngusamningnum verður hafnað í þriðja sinn mun May óska eftir lengri frest frá Evrópusambandinu. Allar tafir á útgöngu Breta verða að vera samþykktar af hinum 27 aðildarríkjum ESB. 

Fyrr í kvöld var kosið um aðra tillögu sem sneri að því að breska þjóðin myndi í annað sinn kjósa um það hvort Bretland ætti að yfirgefa Evrópusambandið. Þeirri tillögu var hafnað með miklum meirihluta, eða 85 gegn 334. 

Á þinginu í kvöld var þriðji tillögunni einnig hafnað, en hún sneri að því að þingmenn neðri deildar breska þingsins tæku við stjórntaumum Brexit-viðræðna. 

Fréttin hefur verið uppfærð.