„Ég get ekki hugsað mér að starfa neins staðar annars staðar en á bráðamóttökunni,“ segir Soffía Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni sem sagði upp störfum þar fyrr í vikunni vegna slæms ástands.

Soffía vakti athygli á máli sínu á Facebook-síðu fyrr í vikunni þar sem hún greindi frá uppsögninni og ástæðum hennar. Færslan vakti gríðarleg viðbrögð og segir Soffía stjórnendur spítalans hafa brugðist hratt við.

Að sögn Soffíu hafi hún verið beðin um að íhuga að draga uppsögnina til baka því að von væri á breytingum þó hlutirnir gerist hægt innan veggja spítalans.

„Ég vona það svo sannarlega að ég sjái einhverja breytingu áður en mín uppsögn tekur í gildi 1. september næstkomandi svo maður geti haldið áfram að vinna við það sem maður elskar,“ segir Soffía og bætir við: „ég elska samstarfsfólkið mitt og ég held að þetta sé flottasta liðið í bænum.“

Gömul saga og ný

Slæm staða spítalans er gömul saga og ný og hefur verið mikið til umræðu undanfarna mánuði og virðist vandinn einna helst liggja í flæðisvanda á milli deilda.

„Fyrst og fremst er þetta þessi flæðisvandi af því að fólkið sem að hefur lokið meðferð á bráðamóttökunni kemst svo ekkert annað og þess vegna dagar það uppi hjá okkur,“ segir Soffía og bætir við að auðvitað þurfi einnig að bæta kjör og vinnuaðstæður starfsfólks samhliða því að vinna gegn flæðisvandanum.

Landspítalinn hefur ítrekað þurft að óska eftir því að fólk sem mögulega getur sótt sér læknisaðstoðar annars staðar geri það því bráðamóttakan anni ekki eftirspurn og að biðtími sé langur.

Soffía segir starfsfólk auðvitað taka reiði sjúklinga inn á sig að hluta.
Fréttablaðið/Anton Brink

Skilur reiði sjúklinga

Aðspurð hvort fólk sem leiti til bráðamóttökunnar sýni stöðunni skilning segir Soffía flesta vissulega gera það og að flestir séu þakklátir. „En svo eru margir sem taka þessa reiði út á okkur.“

Soffía rifjar upp þegar hún stóð á biðstofu bráðamóttökunnar í fyrradag með fulla biðstofu sem hreyfðist ekkert því deildin hafi verið yfirfull. „Þá var öskrað á mig margoft og á okkar frábæru móttökuritara og fólk lét reiðina bitna á okkur,“ segir Soffía og bætir við: „skiljanlega, fólki líður illa og er með verki og skilur ekki af hverju það fær ekki þjónustu. Það sér ekki hvað er í gangi fyrir innan dyrnar, deildin yfirfull og það koma endalausir sjúkrabílar.“

Soffía segir starfsfólk auðvitað taka reiði sjúklinga inn á sig að hluta, „manni líður eins og maður sé að bregðast.“

Hér að neðan má sjá brot af viðtalið við Soffíu á Fréttavaktinni á Hringbraut.

Þrátt fyrir gríðarlegt álag innan bráðamóttökunnar og á öðrum deildum spítalans segir Soffía móralinn ótrúlega góðan miðað við aðstæður.

Samviskubit og vanlíðan

Aðspurð um álagið innan bráðamóttökunnar segir Soffía ástandið hafa varað í langan tíma og að nú hafi það versnað.

Hún finni í auknum mæli fyrir samviskubiti í lok vaktar og vanlíðan sem fylgi henni heim.

„Maður veit að þó maður hafi gert sitt besta þá er það ekki nóg og við erum að tala um líf fólks. Mistökin geta verið svo dýr og þetta er hræðsla sem kemur æ oftar upp í manni eftir vakt.“

Eins og fjölskylda

Þrátt fyrir gríðarlegt álag innan bráðamóttökunnar og á öðrum deildum spítalans segir Soffía móralinn ótrúlega góðan miðað við aðstæður.

Starfsfólkið sé mjög náið og að hópurinn sé þéttur, „þetta er svo frábært fólk og er eins og fjölskylda manns.“

Að sögn Soffíu er starfsfólkið duglegt að gefa hvort öðru faðmlag og styðja hvort annað og að húmorinn sé aldrei langt undan.

Soffía heldur sjálf í vonina um að breytingar séu í vændum svo hún geti haldið áfram að vinna við það sem hún elskar.