Haf­dís Hanna Ægis­dóttir, doktor í plöntu­vist­fræði og for­stöðu­maður Land­græðslu­skóla Há­skóla Sam­einuðu þjóðanna, segir að til þess að hægt sé að takast á við lofts­lags­breytingar í heiminum sé nauð­syn­legt að muna hversu hnatt­rænn vandinn er. Hún segir einnig mikil­vægt að muna að víða um heim er fólk að takast á við sömu á­skoranir þegar kemur að land­eyðingu og lofts­lags­málum og því geti það auð­veldað okkur öllum vinnuna ef að við erum sam­taka með lausnir líka.

Hjá Land­græðslu­skólanum hefur nú um ára­bil verið í boði sex mánaða nám þar sem nem­endur læra um land­græðslu, sjálf­bæra land­nýtingu og tengsl við lofts­lags­vandann. Auk þess fara allir nem­endur í náminu í gegnum leið­toga­þjálfun. Haf­dís Hanna fjallaði um málið á fyrir­lestri TEDx Reykja­vík sem fram fór í Há­skóla­bíói síðast­liðinn sunnu­dag.

„Ég fjallaði um hvernig hægt er að þjálfa leið­toga til að takast á við þær miklu á­skoranir sem við stöndum nú frammi fyrir eins og lofts­lags­breytingar og land­eyðingu” segir Haf­dís Hanna í sam­tali við Frétta­blaðið.

Haf­dís Hanna hefur verið for­stöðu­maður skólans í rúm­lega tíu ár og segir að alls hafi 139 nem­endur farið í gegnum námið. Þau vinna með nem­endum frá Mið-Asíu og Afríku en Land­græðslu­skólinn er hluti af fram­lagi Ís­lands til al­þjóð­legrar þróunar­sam­vinnu.

„Nemarnir okkar eru allt starfandi sér­fræðingar í sínum heima­löndum en þau koma hingað til Ís­lands til að læra af okkur og við á sama tíma af þeim,“ segir Haf­dís Hanna.

Hún segir að námið fjalli auð­vitað að miklu leyti um land­græðslu og hvernig hún tengist stóru um­hverfis­málunum í dag, en þeim hafi á­vallt þótt mikil­vægt að tengja leið­toga­þjálfunina inn í námið.

„Við sjáum hvað það skiptir gríðar­lega miklu máli að búa til leið­toga. Við leggjum á­herslu á að þau setji sér mark­mið í sam­vinnu við mark­þjálfa og að þau beri á­byrgð á sínum eigin verk­efnum og þjálfun. Það má segja að þau fara al­ger­lega út fyrir sinn þæginda­ramma í náminu, til dæmis með því að flytja fyrir­lestra og koma fram og miðla þekkingu til mis­munandi hópa,“ segir Haf­dís Hanna.

Betur í stakk búin til að takast á við verkefnin heima

Hún segir að með slíkri þjálfun fái nem­endur styrk og þor til að takast á við ýmis verk­efni þegar þau koma aftur til síns heima­lands en þar starfa þau ýmist hjá ráðu­neytum, rann­sóknar­stofnunum eða há­skólum.

„Við hvetjum þau ein­dregið til að miðla af sinni þekkingu þegar þau koma aftur til síns heima og það sem við höfum séð er að þau hafa verið að gera ó­trú­lega góða hluti,“ segir Haf­dís Hanna.

Esther og Moustafa
Myndir/Aðsendar

Stofnaði umhverfisklúbba í Gana

Hún tekur sem dæmi sögu Estherar frá Gana. Esther er lektor við há­skóla í norður­hluta Gana. Eftir að hafa upp­lifað skógar­eyðingu í sínu heima­landi átti hún sér þann draum að fræða heima­menn um mikil­vægi þess að vernda náttúruna. Hana hafi þó skort tólin til að láta þann draum verða að veru­leika.

„Esther var nemandi við Land­græðslu­skólann árið 2012 og ég var svo glöð að heyra að námið hafi gefið henni það sem hún þurfti til að láta draum sinn verða að veru­leika. Minna en ári eftir að hún lauk þjálfuninni hér á Ís­landi, hafði hún sett á stofn þrjá um­hverfisklúbba fyrir skóla­börn í norður­hluta Gana. Þessir klúbbar hafa vaxið ört og telja nú um 200 börn í fjórum mis­munandi skólum,“ segir Haf­dís Hanna.

Hún heim­sótti um­hverfisklúbbana í fyrra á ferð sinni um Gana og hitti börn sem tekið hafa þátt í þeim. Börnin sögðu henni frá um­hverfis­breytingunum sem þau upp­lifa dags dag­lega og hvernig þau sjá fyrir sér að takast á við þær.

Þurrkur hafði meiri áhrif á illa farið land en heilbrigt

Á TEDx fyrir­lestrinum sagði Haf­dís Hanna einnig sögu Moustapha frá Níger í Vestur Afríku en Níger er eitt fá­tækasta ríki heims. Á­hugi Moustapha fyrir um­hverfis­málum vaknaði árið 1984 eftir að mikill þurrkur reið yfir heima­land hans sem ollli upp­skeru­bresti og dauða bú­penings.

„Moustapha sagði mér að hann hafi sem barn tekið eftir því að þurrkurinn hafði meiri á­hrif á illa farið land en heil­brigt land sem var þakið gróðri. Hann fékk því ást­ríðu fyrir um­hverfis­vernd og land­græðslu og á­kvað að gera það að at­vinnu sinni“ segir Haf­dís Hanna.

Eftir að hann lauk há­skóla­námi og hafði starfað hjá um­hverfis­ráðu­neytinu í Níger í tvö ár fékk hann tæki­færi til að taka þátt í þjálfun Land­græðslu­skólans.

„Moustapha sagði mér að þjálfunin hafi aukið getu hans á sviði land­græðslu, land­nýtingar og leið­toga­hæfni og að eftir að hann sneri aftur til Níger hefur hann fengið nokkrar stöðu­hækkanir og er nú í lykil­stöðu til að hafa á­hrif á stefnu­mótun og á­kvarðanir í um­hverfis­málum,“ segir Haf­dís Hanna.

Hafdís heimsótti umhverfisklúbba Estherar.
Mynd/Aðsend

Mikil áhersla á samvinnu

Haf­dís Hanna segir að Land­græðslu­skólinn leggi á­herslu á sam­vinnu og það hvernig hægt sé að vinna saman að lausnum.

„Nemarnir koma frá ýmsum löndum Afríku og Mið-Asíu; karlar og konur sem að­hyllast mis­munandi trúar­brögð og eru á aldrinum 25-40 ára með mis­munandi reynslu og þekkingu. Náms­um­hverfið verður því suðu­pottur þar sem hug­myndum og þekkingu er deilt. Minn draumur er að búa til nú­tíma­leið­toga sem leggja á­herslu á sam­vinnu og virka hlustun. Við getum gert miklu meira ef við gerum það saman, hlustum á hvort annað og berum virðingu fyrir reynslu og hug­myndum hvors annars. Það er það sem við þurfum ef við ætlum að takast á við þær miklu á­skoranir sem við okkur blasa í um­hverfis­málum,“ segir Haf­dís Hanna.

Svipuð vandamál víða um heim

Haf­dís Hanna hefur sjálf ferðast mikið vegna starfs síns. Þrátt fyrir að hafi farið á marga ó­líka staði víða um heim þá hafi það alltaf komið henni á ó­vart hvað við erum að glíma við svipuð um­hverfis­vanda­mál.

„Þegar ég kom fyrst til Níger þá áttaði ég mig á því að við erum öll að takast á við það sama. Það sem við sjáum á Ís­landi er ekki svo ó­líkt því sem ég hef séð í Mongólíu, Lesótó eða Níger,“ segir Haf­dís Hanna.

Hún tekur Níger sem dæmi. Þar sé heitt og allt öðru­vísi menning en á Ís­landi.

„En svo kem ég þarna og þá mætir manni bara ís­lenskt sand­rok, nema sandurinn er gullinn en ekki svartur. Bæði löndin glíma við mikla land­eyðingu. Sömu sögu má segja frá Lesótó í sunnan­verðri Afríku. Þar sá ég of­beitt land og illa farið. Oft er þetta mjög svipaðar að­stæður víða um heim, það er verið að nýta landið á ó­sjálf­bæran hátt.“ segir Haf­dís Hanna.

Að­ferðirnar eða lausnirnar til að bæta land­gæði eru einnig svipaðar að sögn Haf­dísar Hönnu þótt alltaf þurfi að taka til­lit til staðar­að­stæðna.

„Þetta eru sams konar á­skoranir í tengslum við land­eyðingu. Við erum til dæmis að beita landið of mikið, og við verðum öll fyrir barðinu á lofts­lags­breytingum,” segir Haf­dís Hanna að lokum.