Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi berast nokkrum sinnum á mánuði tölvupóstar frá erlendum karlmönnum sem halda að um einhverskonar stefnumótasíðu eða fylgdarþjónustu sé að ræða. Þetta staðfestir Angelique Kelley, formaður stjórnar félagsins í samtali við Fréttablaðið.
Samtökin ljá konum af erlendum uppruna á Íslandi rödd og vinna meðal annars að því að uppræta staðalmyndir um erlendar konur á vinnumarkaðnum. Angelique segist ekki taka misskilningnum um hlutverk samtakanna alvarlega.
„Við fáum af og til skilaboð frá karlmönnum í útlöndum sem virðast hafa leitað að orðunum „women in Iceland“ og fá okkur upp og við erum að fá nokkur þannig skilaboð á mánuði og þannig hefur það verið í nokkur ár,“ segir Angelique.
Hún tekur fram að slíkir póstar séu því ekki nýir af nálinni en segir að fjöldi slíkra pósta hafi aukist fyrir þremur árum síðan þegar póstur gekk um á netinu þar sem fullyrt var að skortur væri á íslenskum karlmönnum og að ráðherra myndi greiða erlendum karlmönnum fyrir að flytjast til Íslands og giftast íslenskum konum.
„Þá vorum við að fá mikið meira. En flestir taka þessu nú bara vel þegar ég svara þeim og tjái þeim að svona starfsemi sé ekki á okkar snærum. Flestir eru bara að leita sér að konum til að giftast,“ segir Angelique og ljóst að hún tekur misskilningnum af stökustu ró.
Senda sjálfvirk skilaboð með upplýsingum
Hún segir að samtökin hafi gripið til þess ráðs að senda sjálfvirk skilaboð til fólks sem sendir inn fyrirspurnir, þar sem þeim er beint inn á vefsíðu samtakanna í skilaboðum á Facebook og í tölvupóstum. Það hafi fækkað slíkum skilaboðum. „Þar getur fólk séð upplýsingar um samtökin en við erum samt enn að fá eitthvað af þessum skilaboðum,“ segir Angelique.
„Til dæmis fengum við skilaboð frá einum sem mér fannst mjög fyndin um daginn. Hann tók fram að hann vildi feita konu. Ekkert annað skipti máli, bara að hún væri feit,“ segir Angelique létt í bragði. „Mér fannst það svolítið fyndið og ég tek þessu öllu almennt létt en sumum með mér í samtökunum þykir þetta ekkert jafn fyndið,“ segir Angelique.
Einhver uppsveifla núna
Spurð segir Angelique að misskilningsins gæti sennilega vegna nafnsins. „Flestir sem skrifa okkur líka skrifa okkur ekki á það góðri ensku svo ég veit ekki hversu mikið þeir skilja. Ég veit ekki hvort þetta séu fréttir en þetta er svolítið fyndið og ég tek þessu bara á léttu nótunum,“ segir Angelique.
Hún segist greina einhverja fjölgun í skilaboðunum núna án þess að átta sig á því hvers vegna svo sé. „Það er einhver smá uppsveifla núna, ég veit ekki alveg hvers vegna, kannski er einhver svona nýr fjöldapóstur í gangi,“ segir Angelique.
„Við auðvitað erum hagsmunasamtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, þetta er ekki stefnumótaþjónusta,“ segir Angelique og hlær.