Sam­tökum kvenna af er­lendum upp­runa á Íslandi berast nokkrum sinnum á mánuði tölvu­póstar frá er­lendum karl­mönnum sem halda að um ein­hvers­konar stefnu­móta­síðu eða fylgdar­þjónustu sé að ræða. Þetta stað­festir Angeliqu­e Kell­ey, for­maður stjórnar fé­lagsins í sam­tali við Frétta­blaðið.

Sam­tökin ljá konum af er­lendum upp­runa á Ís­landi rödd og vinna meðal annars að því að upp­ræta staðal­myndir um er­lendar konur á vinnu­markaðnum. Angeliqu­e segist ekki taka mis­skilningnum um hlut­verk sam­takanna al­var­lega.

„Við fáum af og til skila­boð frá karl­mönnum í út­löndum sem virðast hafa leitað að orðunum „wo­men in Iceland“ og fá okkur upp og við erum að fá nokkur þannig skila­boð á mánuði og þannig hefur það verið í nokkur ár,“ segir Angeliqu­e.

Hún tekur fram að slíkir póstar séu því ekki nýir af nálinni en segir að fjöldi slíkra pósta hafi aukist fyrir þremur árum síðan þegar póstur gekk um á netinu þar sem full­yrt var að skortur væri á ís­lenskum karl­mönnum og að ráð­herra myndi greiða er­lendum karl­mönnum fyrir að flytjast til Ís­lands og giftast ís­lenskum konum.

„Þá vorum við að fá mikið meira. En flestir taka þessu nú bara vel þegar ég svara þeim og tjái þeim að svona starf­semi sé ekki á okkar snærum. Flestir eru bara að leita sér að konum til að giftast,“ segir Angeliqu­e og ljóst að hún tekur mis­skilningnum af stökustu ró.

Senda sjálfvirk skilaboð með upplýsingum

Hún segir að sam­tökin hafi gripið til þess ráðs að senda sjálfvirk skilaboð til fólks sem sendir inn fyrirspurnir, þar sem þeim er beint inn á vef­síðu samtakanna í skila­boðum á Face­book og í tölvu­póstum. Það hafi fækkað slíkum skila­boðum. „Þar getur fólk séð upp­lýsingar um sam­tökin en við erum samt enn að fá eitt­hvað af þessum skila­boðum,“ segir Angeliqu­e.

„Til dæmis fengum við skila­boð frá einum sem mér fannst mjög fyndin um daginn. Hann tók fram að hann vildi feita konu. Ekkert annað skipti máli, bara að hún væri feit,“ segir Angeliqu­e létt í bragði. „Mér fannst það svo­lítið fyndið og ég tek þessu öllu almennt létt en sumum með mér í sam­tökunum þykir þetta ekkert jafn fyndið,“ segir Angeliqu­e.

Ein­hver upp­sveifla núna

Spurð segir Angeliqu­e að mis­skilningsins gæti senni­lega vegna nafnsins. „Flestir sem skrifa okkur líka skrifa okkur ekki á það góðri ensku svo ég veit ekki hversu mikið þeir skilja. Ég veit ekki hvort þetta séu fréttir en þetta er svo­lítið fyndið og ég tek þessu bara á léttu nótunum,“ segir Angeliqu­e.

Hún segist greina ein­hverja fjölgun í skila­boðunum núna án þess að átta sig á því hvers vegna svo sé. „Það er ein­hver smá upp­sveifla núna, ég veit ekki alveg hvers vegna, kannski er ein­hver svona nýr fjölda­póstur í gangi,“ segir Angeliqu­e.

„Við auð­vitað erum hags­muna­sam­tök kvenna af er­lendum upp­runa á Ís­landi, þetta er ekki stefnu­móta­þjónusta,“ segir Angeliqu­e og hlær.