Stjórn Samtakanna 78 samþykkti í kvöld að samtökin muni kæra ummæli Helga Magnúsar Gunnarssonar, vararíkissaksóknara, til lögreglu. Þetta staðfestir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78 í samtali við Fréttablaðið.

Helgi Magnús birti færslu fyrir helgi þar sem hann sagði hælis­leit­endur „auð­vitað“ ljúga um kyn­hneigð sína og spurði hvort „ein­hver skortur [væri] á hommum á Ís­landi.“

„Kæran verður lögð fram í fyrramálið,“ segir Daníel. Hann segir einróma samþykki hafa legið fyrir hjá stjórninni um að leggja skuli fram kæru.

„Þetta eru ekki bara ósmekkleg ummæli, heldur eru þetta mjög alvarleg ummæli og þau geta haft miklar afleiðingar í för með sér,“ segir Daníel.

Skjáskot/Facebook

Helgi Magnús birti færslu sína við frétt þar sem rætt var við lög­mann hælis­leitanda eftir að Héraðs­dómur snéri við á­kvörðun Út­lendinga­stofnunar um synjun á hæli, enda teldist það sannað að hann væri sam­kyn­hneigður. Sagði lög­maðurinn stjórn­völd hafa vænt skjól­stæðing sinn um að ljúga til um kyn­hneigð sína.

Hatursorðræða refsiverð

Yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Fréttablaðið fyrir helgi að málið færi í greiningu hjá embættinu ef kæra eða beðni um rannsókn bærist.

Í kæru Samtakanna 78 verður vísað til þess að um hatursorðræðu sé að ræða í færslu Helga Magnúsar. En hatursorðræða varðar allt að tveggja ára fangelsi samkvæmt 233. gr. a. almennra hegningarlaga.

„Þessi um­mæli dæma sig al­gjör­lega sjálf,“ segir Daníel. „Hann er náttúru­lega að grafa undan því réttar­ríki sem hann vinnur fyrir þannig að ég veit ekki hverjum það á að þjóna,“ bætir hann við.

„Þetta er þrí­þætt,“ segir Daníel. „Þetta eru ó­smekk­leg um­mæli, bara varðandi hin­segin fólk al­mennt. Annað, er að hann er að grafa undan þessu trausti á réttar­ríkinu og það þriðja er að hann er bara að opin­bera kerfis­bundna for­dóma gagn­vart þessum hópi fólks,“ segir hann.

Daníel segir þetta einungis vera toppurinn á ís­jakanum. „Að koma með þessi um­mæli þá er hann að sanna það að það séu búnir að vera kerfis­lægir for­dómar gagn­vart þessum hópi í lengri tíma,“ segir hann.

„Málið er að ef það kærir þetta enginn og þessu bara leyft að vera, þá búum við bara í þannig þjóð­fé­lagi að það er ekki tekið á málunum innan stofnana sem eiga að taka á þessu,“ segir Daníel.

Samtökin 78 alltaf til staðar

„Við erum að tjá það trekk í trekk hér hjá okkur að sér­stak­lega karl­menn þurfi að sanna það að þeir séu hin­segin og þeim sé ekki trúað vegna þess að þeir voru kannski í sam­bandi með mann­eskju fyrir sex árum síðan á Face­book,“ segir Daníel og bætir við að þetta kerfi sé erfitt.

„Við erum alltaf til staðar,“ segir Daníel um Sam­tökin 78. „Það má alltaf vera í sam­bandi við okkur í sam­tökunum. Hvort ein­stak­lingur þekki hin­segin hælis­leit­endur eða hin­segin fólk sem er inni í þessu kerfi, þá má það hafa sam­band við okkur,“ bætir hann við.