Samtökin ´78 sæmdu í dag Guðrúnu Ögmundsdóttur heiðursmerki fyrir baráttu hennar fyrir auknum réttindum hinsegin fólks.
„Stjórn Samtakanna ´78, félags hinsegin fólks á Íslandi heiðrar Guðrúnu Ögmundsdóttur fyrir ómetanlegt framlag hennar í þágu hinsegin fólks og veitir henni í dag heiðursmerki félagsins,“ sagði Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður samtakanna af tilefninu.
Guðrún Ögmundsdóttir var ötul í baráttu um réttindi hinsegin fólks til staðfestrar samvistar. Árið 2003 bað hún um að gerð yrði skýrsla um sambúðarform fólks og í henni var réttindaleysi samkynja para í sambúð staðfest. Þau nutu engra réttinda í samanburði við gagnkynja pör. Skýrslan var vel unnin og ítarleg og er enn þann dag í dag notuð þegar nánari skýringa á lögunum er þörf.