Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78, áætlar að samtökin hafi fengið á tólftu milljón króna í styrki frá fyrirtækjum og einkaaðilum undanfarna mánuði. Í vikunni styrkti bílaumboðið Brimborg samtökin um þrjár milljónir króna.

„Þetta er náttúrulega bara algjör lífsbjörg. Við erum félagasamtök og núllið er það sem við horfum á. Allt okkar rekstrarfé er bundið í samningum og verkefnum, bæði við sveitarfélög og ríki. En að fá þessa peninga, þá getum við farið í einhver þróunarverkefni, kynningarstarf og sértæk verkefni sem er ekki verið að fjármagna annars staðar frá. Það er algjörlega ómetanlegt.“

Umsvif Samtakanna ‘78 hafa aukist til muna síðustu árin.

„Við erum að velta yfir 100 milljónum á þessu ári, í samanburði við 2016 þegar við veltum 16 milljónum. Þetta er náttúrulega orðið miklu stærra batterí og það er bara aukin þjónusta. Þannig að þessir styrkir halda okkur algjörlega á floti,“ segir Daníel.