Samtök kvenna í íþróttum segjast harma viðbrögð íþróttahreyfingarinnar í máli Emilíu Rósar, en hún greindi frá því í helgarblaði Fréttablaðsins að hún hafi ekki fengið stuðning frá Skautafélagi Akureyrar eftir hún greindi frá kynferðislegri áreitni þjálfara síns hjá félaginu.
„Íþróttahreyfingin ber ábyrgð á því að koma í veg fyrir áreitni innan íþrótta. Íþróttahreyfingin þarf að vera með skýrar verklagsreglur um hvernig skal bregðast við kynferðislegri áreitni og ofbeldi,“ segir stjórn samtakanna í yfirlýsingu á Facebook og segja þau að öruggt umhverfi í íþróttum sé mikilvægt.
Skautafélag Akureyrar sendi yfirlýsingu eftir að Emilía greindi frá brotunum þar sem félagið lýsti efir stuðning við þjálfarann og sögðu að engar sannanir hafi legið fyrir um brotin. Þá leitaði Emilía til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands en þar hafi hún heldur ekki fengið neina aðstoð og var henni bent á að hún hefði átt að hafa samband við Barnavernd og lögreglu um leið og málið kom upp.
Nauðsynlegt að búa til skýrar reglur og verkferla
„Það er ekki boðlegt að þolendaskamma börn og segja þeim að þau hefðu átt að hafa samband við Barnavernd. Það er ekki á ábyrgð þolenda/barna að bregðast rétt við heldur er það á ábyrgð íþróttahreyfingarinnar,“ segir í yfirlýsingu samtakanna um viðbrögðin sem Emilía fékk.
Þá segir í yfirlýsingunni að kynferðisleg áreitni og ofbeldi eigi aldrei að líðast í íþróttum og að stjórnin kæmi til með að styðja við bakið á Emilíu sem og öllum öðrum þolendum.
„Við hvetjum ÍSÍ, UMFÍ, Æskulýðsvettvanginn að koma saman og útbúa sameiginlegar, skýrar reglur og verkferla í þessum málaflokki. Við hvetjum einnig öll íþróttabandalög, íþróttahéruð og íþróttafélög að skoða þessi mál gaumgæfilega hjá sér.“